Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:44:23 (4766)

2002-02-14 20:44:23# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:44]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var undir lok ræðunnar sem hv. þm. sagði nokkuð sem ég er ósammála henni um. Ég tel það ekki rétt. Hún taldi að lögin um mat á umhverfisáhrifum hafi verið sett til þess að reyna að koma í veg fyrir stórfelld náttúruspjöll. Þau voru sett til þess að við vissum um hvað væri að ræða, að við hefðum upplýsingar og forsendur til að taka ákvarðanir. Þannig lít ég á þetta mál og tel það stórt atriði. Ég vil koma því hér á framfæri.

Annað var ég ósátt við í máli hv. þm. Hún margtók fram að það hefði ekki verið haldið skynsamlega á málum hvað varðar vinnubrögð og farið öfugt að hlutunum. Hún taldi lítið fara fyrir skynsamlegum vinnubrögðum og við Íslendinga ekki eins góða við að undirbúa mál og við værum stórhuga. Ég sé ekki betur en að í þessu máli hafi í öllum tilfellum verið farið nákvæmlega að lögum í landinu. Að halda því fram að einhver brotalöm sé í sambandi við undirbúning og vinnubrögð, það fellst ég alls ekki á. Hv. þm. getur verið á móti þessu eins og ég heyri að hún er. Henni finnast þetta stórkostlegustu náttúruspjöll Íslandssögunnar og hún getur verið á móti framkvæmdinni sem slíkri út af því. En hún getur að mínu mati ekki verið á móti þessu vegna þess að illa hafi verið staðið að málum af hálfu stjórnvalda.