Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:47:46 (4768)

2002-02-14 20:47:46# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:47]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. vitnar mikið í rammaáætlun og er ekkert nema gott um það að segja. Þar fer fram mikilvægt starf. Nú er ekki langt í að fyrsta útspil komi frá rammaáætlun sem snýst þá um virkjanir sem hægt er að bera saman við þann kost sem við erum að fjalla um í dag, Kárahnjúkavirkjun. Það hefur alltaf staðið til og við það verður staðið.

Af því að komið hefur fram í umræðunni að ákveðnar virkjanir eða ákveðnar ár væru tilnefndar, t.d. á bls. 24, sem viðkomandi þingmenn hafa fullyrt eða talið að aldrei yrði farið í og aldrei yrðu virkjaðar vil ég leggja áherslu á að það er náttúrlega skylda Orkustofnunar að fjalla um alla kosti. Orkustofnun tekur ekki pólitískar ákvarðanir. Það er stjórnmálamanna að ákveða í hvaða virkjanir verður farið. En Orkustofnun hefur þær skyldur að skoða alla kosti sem uppi eru, og rammaáætlun er að vinna úttekt á bókstaflega öllum mögulegum og ómögulegum hlutum. Mér dettur ekki í hug að allt verði virkjað sem virkjanlegt er á Íslandi. Það mun aldrei verða en hins vegar er þetta orkulind, þetta er auðlind, sem við Íslendingar búum yfir og aðrar þjóðir öfunda okkur mjög af. Þetta er endurnýjanleg orka og það er jákvætt fyrir heimsbyggðina að hún sé nýtt og það er jákvætt fyrir heimsbyggðina að hún sé nýtt til álframleiðslu.