Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 21:15:47 (4774)

2002-02-14 21:15:47# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[21:15]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil segja að ég get dáðst að hv. þm. fyrir það að hún setur sig mjög vel inn í mál og veit alveg um hvað hún er að tala. En hún er bara ósammála mér. Við erum ósammála í þessu máli. Það er bara eins og lífið er. Fólk er ekki alltaf sammála.

Ég veit ekki hvort við bætum okkur mikið með því að halda áfram með þessa umræðu. Það á eftir að fjalla um þetta mál í nefnd. Síðan kemur það til 2. umr. og við skulum sjá til hvort við verðum jafnósammála þá. Það getur vel verið að svo fari. En ég get sagt að ég hef líka fengið ýmis kort. Óskaplega falleg kort. Ég les þau að sjálfsögu og ber virðingu fyrir því sem fólk er að skrifa mér. En það breytir ekki því að ég hef uppi þessi áform og ríkisstjórnin, að fara í þessar miklu framkvæmdir sem eru vissulega stórar. Það var sagt hérna áðan að við Íslendingar værum stórhuga. Við erum það oft og við ráðum við ótrúlega stór verkefni. Við erum snjöll þjóð og Íslendingar gera miklar kröfur til lífsgæða. Við þurfum að hafa það í huga að við sem berum ábyrgð á þjóðarskútunni núna berum mikla ábyrgð á því að fólk geti haldið kaupmætti sínum og lifað áfram góðu lífi í þessu landi, ekki bara á suðvesturhorninu heldur um allt land. Þetta er einn liður í því að styrkja stöðu Austurlands og að halda uppi kaupmætti á Íslandi til frambúðar. Kannski koma aðrir menn á eftir okkur í ríkisstjórn sem vilja gera hlutina allt öðruvísi. En ég vona að þeir hafi líka tillögur um hvernig við getum haldið áfram að lifa hér góðu lífi.