Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 21:17:41 (4775)

2002-02-14 21:17:41# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[21:17]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þennan mildilega tón sem hún kýs að nota í síðasta andsvari sínu. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir. Við erum einfaldlega ósammála um þessa hluti. Þess vegna er mjög mikilvægt að málefnaleg umræða fari fram í þeim þingnefndum sem fá málið til umfjöllunar. Ég ítreka það, herra forseti, í lok þessarar umræðu að það er afar mikilvægt að þær þrjár nefndir sem kallað hefur verið eftir í þessari umræðu að fái þetta mál til umfjöllunar, fái það. Við erum að tala um hv. iðnn. sem að sjálfsögðu fær málið eðli málsins samkvæmt. En það er mjög nauðsynlegt að hv. efh.- og viðskn. og hv. umhvn. fái málið einnig til umfjöllunar því öðruvísi erum við ekki að fjalla um það á nægilega breiðum grunni. Ég treysti því að málefnaleg umræða komi til með að fara fram í nefndunum og að þar geti fólk tekist á af einurð og heiðarleika og unað við það að vera ósammála.