Verndun hafs og stranda

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 21:51:03 (4783)

2002-02-14 21:51:03# 127. lþ. 78.2 fundur 492. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[21:51]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið fram. Ég tel reyndar að það sé dálítið seint fram komið, miðað við að þingið eigi að afgreiða það núna. Ég býst við að ýmsir þurfi að koma að málinu og nefndin þurfi góðan tíma til að fást við það. Það vakna auðvitað fjölmargar spurningar en kannski er ekki ástæða til að fara mikið í þær hér.

Það er þó eitt sem maður veltir auðvitað mikið fyrir sér þegar maður sér 1. gr. þessa frv., þar sem stendur:

,,Markmið laga þessara er að vernda hafið og strendur landsins gegn mengun og athöfnum sem stofnað geta heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir hafsins og raskað lífríki þess.``

Þá fer maður auðvitað að velta fyrir sér umgengninni um auðlindina í kringum landið, veiðarfærum skipanna og þeirri umhverfisröskun sem fylgt getur veiðunum. Í fljótu bragði sé ég ekki að í frv. sé fengist við það mál, þ.e. hvernig eigi fylgjast með og vernda hafsbotninn og lífverurnar þar vegna röskunar af völdum skipa og veiðarfæra. Það er auðvitað umhugsunarefni hvernig yfirráð eða ábyrgð ráðuneyta í þessu skarast. Það er eitthvað sem þarf að velta fyrir sér.

Hér hefur verið nefnt að hæstv. ráðherra hefur farið vandlega yfir málið. Við munum auðvitað taka við því í nefndinni og skoða það. Hér eru nýir hlutir á ferðinni, t.d. að aðilum sé gert að bera ábyrgð á tjóni sem þeir hafa ekki valdið í sjálfu sér með athöfnum sínum eða athafnaleysi heldur getur komið til af einhverjum öðrum ástæðum. Þá er ætlast til að menn tryggi sig gagnvart slíku á ákveðinn hátt. En þá þurfa þær reglur að vera afar skýrar og afmarkandi, með hvaða hætti er staðið að þeim. Þannig yrði í sjálfu sér eitthvað að marka slíka ábyrgð. Slíkar upphæðir gætu verið á ferðinni að einstök fyrirtæki gætu aldrei borið það tjón. Hefðu þau ekki staðið þannig að málum að tryggja sig fyrir slíku tjóni væri kannski vonlítið að það tjón yrði bætt sem hlytist af starfsemi þeirra. Þetta er umhugsunarefni.

Ég held að um málið sé ekki fleira að segja en ég fagna því að farið hafi verið yfir þessi mál og að þau skuli komin á rekspöl. Ég tel að það megi vel á spöðunum halda ef hægt á að vera að klára þetta mál í vetur. Ég ætla ekki að víkja mér undan þeirri vinnu sem nefndin þarf að leggja í það. Ég geri hins vegar ráð fyrir að nefndin fái ekki viðbrögð við þessu máli fyrr en einhvern tíma þegar líður á næsta mánuð, eftir að það hefur verið sent til umsagnar og þá þarf þetta að ganga hratt fyrir sig.