Umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:08:08 (4792)

2002-02-18 15:08:08# 127. lþ. 79.91 fundur 339#B umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér finnst eftirtektarvert hvernig hæstv. forsrh. reynir að smokra sér undan umræðu um Landssímann og málefni tengd honum. Hæstv. forsrh. verður auðvitað að svara ýmsum málum sem tengjast Símanum, m.a. hvort hann líði þau vinnubrögð að forstjórastólum sé lofað út og suður á milli kosninga, eins og fram hefur komið í umræðunni. Hæstv. samgrh. er t.d. núna að kvarta undan því að hann hafi fengið málefni forstjórans og ráðningarsamninginn í erfðagóss frá fyrrv. samgrh. Þetta er orðið það stórt og viðamikið mál að hæstv. forsrh. ber skylda til að svara fyrir ýmsa þætti sem snúa að þessu máli.

Nú er það svo að á hverjum einasta degi verður þjóðin vitni að því hvernig græðgi og valdhroki hefur leikið stjórnendur Símans, þar sem þeir hygla sjálfum sér á kostnað skattgreiðenda. Þetta er auðvitað mál sem hæstv. forsrh. verður að svara fyrir og getur ekki komið sér hjá umræðum um það.

Ég verð að segja að mér finnst þetta mál svo stórt, viðamikið og svo mikil ósvífni og hneyksli í þessu máli öllu saman að Alþingi ber skylda til þess að fara ofan í það. Það er skylda þingsins. Ég tel að það hljóti að koma til greina, herra forseti, að skipa sérstaka rannsóknarnefnd, skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, til að fara ofan í þetta mál, svo alvarlegt er það.

En það sem vekur eftirtekt á þessum degi er hvernig forsrh., oddviti ríkisstjórnarinnar, reynir að koma sér hjá umræðu um þetta hneykslismál.