Störf og starfskjör einkavæðingarnefndar

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:30:02 (4803)

2002-02-18 15:30:02# 127. lþ. 79.94 fundur 342#B störf og starfskjör einkavæðingarnefndar# (umræður utan dagskrár), Flm. KLM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Snemma í haust lagði ég fram litla fyrirspurn á hinu háa Alþingi til hæstv. forsrh. um störf og starfskjör framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Rétt er að taka fram að ýmislegt í þessu svari taldi ég þurfa að ræða frekar við hæstv. forsrh. og þá hafði ég ekki annað tækifæri en að óska eftir því að það yrði gert utan dagskrár. Töluvert langur tími er liðinn síðan það var en ýmislegt hefur gert það að verkum að þessi umræða hefur ekki getað orðið fyrr en nú.

Frá því að ég bað um þessa umræðu hefur líka margt komið í ljós og málið er alltaf að taka á sig nýja og nýja mynd, í raun og veru frá degi til dags og frá klukkutíma til klukkutíma. Hver veit nema eitthvað nýtt sé að koma fram einmitt á þessum mínútum sem tengist einkavæðingarferli Landssímans?

Í umræddu skriflegu svari kemur m.a. fram að hlutverk framkvæmdanefndar um einkavæðingu er og hefur verið að útfæra stefnu stjórnvalda og kaupa þá sérfræðiþjónustu sem á hefur þurft að halda vegna einkavæðingar ríkisfyrirtækja. Jafnframt kom fram í svarinu að annað stærsta hlutverk nefndarinnar væri að undirbúa sölu hlutabréfa í Landssíma Íslands. Þar var ýmislegt fróðlegt og jafnframt stórundarlegt á ferðinni, sérstaklega hvað varðar greiðslur til nefndarmanna sjálfra, svo og furðulegir starfshættir þeirra.

Herra forseti. Heildarnefndarlaun einkavæðingarnefndar frá árinu 1996 og kaup þriggja nefndarmanna á sérfræðiþjónustu hjá sjálfum sér eru tæpar 40 millj. kr. með virðisaukaskatti. Þar af er hlutur formanns nefndarinnar rúmar 20 millj. kr., einnig með virðisaukaskatti. Þetta er að mínu mati, herra forseti, gróf sjálftaka á launum og afar óeðlileg stjórnsýsla, svo ekki sé meira sagt. Ef maður reynir að skyggnast inn á fundi nefndarinnar geta þeir verið eitthvað á þá leið að nefndarmenn koma saman á nefndarfund, samþykkja að nefndin þurfi að kaupa sér sérfræðiþjónustu fyrir nefndina og ákveða um leið að kaupa þessa sérfræðiþjónustu af sjálfum sér sem er afar óeðlileg stjórnsýsla eins og ég áður sagði.

Síðustu daga hefur svo fyrrv. formaður einkavæðingarnefndar, Hreinn Loftsson, staðið í nokkurs konar reikningsskilum við sig og þjóðina. Komið hafa fram fullyrðingar um ástandið í Landssímanum áður en til útboðs kom þannig að það hálfa væri nóg fyrir þann einkavæðingarferil. Fyrrv. formaður einkavæðingarnefndar hefur með þessu uppgjöri sínu stórskaðað Landssímann að mati sérfræðinga, verðfellt fyrirtækið um nokkra milljarða kr. og skapað ríkissjóði alls konar kostnað eins og fram hefur komið, m.a. í ummælum varaformanns fjárln.

Herra forseti. Hvar enda þessi ósköp öll í einkavæðingarferli ríkisstjórnarinnar? Einkavæðingarferillinn er orðinn eitt allsherjarklúður hæstv. ríkisstjórnar og einkavina hennar.

Í framhaldi af þessari upptalningu vil ég leggja fyrir hæstv. forsrh. eftirfarandi spurningu:

Getur það talist eðlileg stjórnsýsla að nefndarmennirnir sjálfir ákveði að kaupa sérfræðiþjónustu af sjálfum sér eins og þeir hafa gert?

Herra forseti. Það kemur líka fram í þessu svari að nefndarmönnum eru skammtaðar 5.500 kr. á tímann. Nefndarmennirnir fá þrjá tíma og stjórnarformaðurinn fimm tíma á viku. Ofan á þessar upphæðir greiðist virðisaukaskattur. Með öðrum orðum eru nefndarlaun greidd út sem verktakalaun. Vegna þessara aðferða við greiðslu nefndarlauna tel ég rétt að spyrja eftirfarandi spurninga:

Er það algeng regla á greiðslu nefndarlauna hjá ríkisvaldinu að greiða þau út sem verktakagreiðslur en ekki eins og hverja aðra launþegagreiðslu sem ber eðlilegan tekjuskatt eins og allur almenningur greiðir? Enn fremur: Hefur nefndarmönnum einkavæðingarnefndar verið bannað að taka þátt í umræddum hlutafjárútboðum, t.d. í söluferli Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, þar sem þeir hafa búið yfir miklum innherjaupplýsingum? Nægir í því efni að nefna nýlega tilkynningu frá hæstv. viðskrh. þar sem grein er gerð fyrir því að starfsmenn ráðuneytisins mega ekki taka þátt í þessu.

Herra forseti. Hér hefur verið rætt í upphafi þingsins um þá leiksýningu sem í raun var sett á svið í lok desember af nokkrum nefndarmönnum fjárln. eftir að hv. þm. Einar Már Sigurðarson spurði út í þær 300 millj. kr. sem var óskað eftir í fjáraukalögum vegna einkavæðingarnefndar. Ég tel ekki þörf á að lengja umræðuna um það nú en segi rétt að lokum, herra forseti: Það er greinilegt að mjög margt í störfum einkavæðingarnefndar þolir ekki dagsljós.