Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:26:55 (4823)

2002-02-18 16:26:55# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ekkert lítið úr störfum lögreglumanna, alls ekki. Ég geri heldur ekki lítið úr störfum fjölda annarra opinberra starfsmanna, svo sem eins og grunnskólakennara eins og ég nefndi, svo sem eins og fólks á bráðamóttöku, fólks sem sér um og annast Alzheimer-sjúklinga o.s.frv. Þetta eru ekki létt störf. Og allt þetta fólk kemur á eftir og það er svo sem alveg sjálfsagt og réttlátt að greiða því öllu lífeyrinn sem hér er talað um. (ÖJ: Þú vilt ekki ...) Ég bara veit að einhver þarf að greiða þessi ósköp. Það er bara það sem ég veit og hv. þingmenn virðast ekki vita. Mig langar til að spyrja hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að því sem ég spurði hv. þm. Ögmund Jónasson að rétt áðan en fékk ekki svar við: Hvernig ætla menn að borga þessa upphæð? (ÖJ: Ég svaraði.) Nei, það kom ekki fram hvernig ætti að greiða 170 milljarða (ÖJ: Jú, jú.) ógreidda, (ÖJ: Jú, jú.)

Herra forseti. Get ég fengið frið fyrir frammíköllum? Þau trufla mig nefnilega.

Síðan vil ég spyrja hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, hvernig hún meti það að með síbatnandi heilsufari og síhækkandi aldri þjóðarinnar séu menn að færa ellilífeyrisaldur úr 70 niður í 65 ára í þessu dæmi og meira að segja skylda menn til að fara á lífeyri. Það er í ljósi þeirrar þróunar að heilbrigði einstaklinga er stöðugt að batna. Það er ekki sami hluturinn að vera sjötugur í dag eins og það var fyrir um 30--40 árum. Það er allt annað.

Þá vil ég spyrja hv. þm.: Telur hún að samningar sem gerðir hafa verið hafi ekki verið gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis? Getur ráðuneytið gert svona samning án þess að hafa fyrirvara um samþykki Alþingis? Ég hélt að það væri Alþingi sem réði þessum lögum en ekki einhverjir samningsaðilar úti í bæ.