Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:10:55 (4838)

2002-02-18 17:10:55# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:10]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í kjölfar ræðu hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur langar mig bara að fá alveg á hreint frá hv. þm. og fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni hvort ég hafi skilið hv. þm. á þann veg að hún í fyrsta lagi fagni þessu frv. Skil ég það rétt að í öðru lagi undirstriki hv. þm. stuðning sinn við grímu- og hettubannið en geri athugasemdir við bann við málningu á fólki sem tekur þátt í óeirðum.

Við skulum hafa það hugfast að hér er einungis miðað við hugsanlega hættu á því að það verði óeirðir. Eins og hæstv. dómsmrh. vék að er hér um heimild að ræða til lögreglunnar. Við göngum ekki eins langt og aðrar Norðurlandaþjóðir.