Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:23:03 (4842)

2002-02-18 17:23:03# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi hugsanleg mannréttindabrot og skerðingu á tjáningarfrelsi og annað sem slíkum réttindum tengist vil ég vekja athygli á því að ég var að vísa í grg. frv. og las orðrétt upp úr því þar sem fram kemur að menn telja sig vera á gráu svæði þegar kemur að því að takmarka svo frelsi manna.

Með þessu heimildarákvæði er verið að færa undir vald lögreglu að meta aðstæður hverju sinni. Ég hef sannast sagna, þó að ég beri mikið traust til íslensku lögreglunnar, miklar efasemdir um þær heimildir og þau völd sem verið er að færa lögreglunni, ekki aðeins í þessum lögum heldur ýmsum öðrum sem við höfum verið að samþykkja, t.d. í tengslum við Schengen-samkomulagið. Ég hef miklar efasemdir um það. Og ég tel að við eigum að skoða þessa löggjöf og aðra sem liggur fyrir þinginu í samhengi og út frá þeim sjónarhóli.