Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:27:12 (4845)

2002-02-18 17:27:12# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:27]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson las skilmerkilega upp úr grg. með frv. á bls. 4 og sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Þess er krafist að takmörkun byggist á lögmæltri heimild, markmið hennar sé réttmætt auk þess sem taka verði tillit til meðalhófsreglunnar um að ekki verði gengið lengra í skerðingu réttinda en nauðsyn ber til.``

Síðan kemur, og það er kaflinn sem hv. þm. sleppti:

,,Þrátt fyrir að lögreglan hafi á grundvelli gildandi laga heimildir til að grípa til aðgerða á mannfundum í þágu allsherjarreglu, þykir eðlilegt að mæla skýrar fyrir um þessar takmarkanir í lögum. Sú takmörkun sem gerð er á tjáningarfrelsinu með frumvarpinu er í þágu allsherjarreglu og grundvallast á þörfinni til að halda uppi lögum og reglu og koma í veg fyrir óeirðir og þau refsiverðu brot sem þær geta haft í för með sér.`` --- Við höfum ótal dæmi um það í dag í Evrópu og á fleiri stöðum. --- ,,Það er nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi að borgararnir njóti verndar gegn þeirri hættu sem getur stafað af óþekkjanlegum einstaklingum sem ógna ró og friði.``

Það má því allt eins túlka það svo að hér sé enn frekar verið að undirstrika að tjáningarfrelsið sé tryggt.

Hv. þm. vék einnig að því að lögreglumenn og félag þeirra hefði beitt sér gegn því að lögreglumenn bæru byssur á Íslandi. Ég tek undir það með hv. þm., ég tel að það sé gott að lögreglumenn beri að öllu jöfnu ekki byssu við sín daglegu störf.

Því langar mig til að spyrja í kjölfarið: Hvað ef lögreglumenn og félag þeirra mæla með því að þetta frv. verði lögfest í þeirri mynd sem það er lagt fyrir Alþingi? Ætlar hv. þm. þá að leggjast gegn frv. engu að síður?