Eldi og heilbrigði sláturdýra

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 18:37:53 (4861)

2002-02-18 18:37:53# 127. lþ. 79.10 fundur 505. mál: #A eldi og heilbrigði sláturdýra# (hækkun gjalds) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[18:37]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 96/1997, um heilbrigði og eldi sláturdýra. Það er lagt fram í því skyni að hækka fjárhæð gjalds sem innheimt er vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum í sláturhúsum og ætlað er að standa straum af raunkostnaði við heilbrigðiseftirlit. Þetta gjald er byggt á innvegnu magni kjöts í afurðastöð. Heimild til innheimtu slíks gjalds varð fyrst til með lögum frá 1994. Áður var þessu fyrir komið með öðrum hætti. Það var talið nauðsynlegt að breyta lögunum á þann veg að eftirlit í sláturhúsum og þar með innheimta gjaldsins yrði framvegis á hendi opinberra aðila til að viðhalda heimild til útflutnings sjávarafurða frá íslenskum sláturhúsum til Evrópusambandsins og Bandaríkja Norður-Ameríku.

Gjaldið rennur í svonefndan Eftirlitssjóð sem er í vörslu landbrn. og hefur verið tekið fram að meginástæða þess að þetta frv. er flutt sé að fjárhagsstaða sjóðsins er mjög erfið. En það vekur óneitanlega athygli í því sambandi að jafnframt kemur fram að sú heimild sem hefur þó verið fyrir í lögum, til að taka 2,50 kr. á kíló, hefur aldrei verið fullnýtt. Það kynni að vera ein ástæðan fyrir því að fjárhagsstaða umrædds sjóðs er erfið.

Ég man að fram kom hugmynd, 1997 hefur það sennilega verið, um að hækka þetta gjald. Þá var hæstv. landbrh. formaður landbn. Hann lenti þá í því að varaformaður nefndarinnar barðist af miklum þrótti gegn breytingu á gjaldinu. Formaðurinn varð að láta í minni pokann og er nú að rísa úr öskustónni með þetta frv. núna á árinu 2002. Lagt er til að þetta verði hækkað og vísað til hækkana á gjaldskrá dýralækna. Það er satt og rétt en lagt er til að gjaldið sé hækkað um 96 aura á hvert kíló, sem er náttúrlega nokkuð mikið. Ég mundi segja að hæstv. ráðherra sé mjög óheppinn að vera að leggja fram þetta mál, sem hann hefur gengið með svo lengi, á þessum niðurskurðartímum. Mér hefur skilist að þjóðarsátt væri í þjóðfélaginu um að halda niðri verðlagi. Ég get því ekki ímyndað mér hvernig þetta fór í gegnum stjórnarflokkana við þessar aðstæður. Ég undrast það satt að segja. (GAK: 1. júní, hv. þm.) 1. júní? Ja, það er ekki nóg. Það kemur dagur eftir þennan dag. Það hefur maður alltaf vitað.

Ég held að það þurfi að gera gott betur en halda í sér til 1. júní. Það væru þá hæg heimatökin að flytja þetta ágæta frv. næsta haust, fari svo sem hér er spáð út í sal, að það fari allt úr böndunum 1. júní. Ég verð hins vegar að segja að við þær aðstæður sem nú eru ríkjandi í þjóðfélaginu vara ég við að þetta gjald sé hækkað um þriðjung, jafnvel þó að staða sjóðsins sé mjög erfið, sérstaklega með tilliti til þess að heimildin hefur aldrei verið fullnýtt.

Ég vil leggja það til, hæstv. forseti, að fyrst verði heimildin fullnýtt og því næst beðið átekta fram til haustsins frekar en að setja þessa hækkun á núna.