Þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 14:28:28 (4895)

2002-02-19 14:28:28# 127. lþ. 80.94 fundur 346#B þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[14:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef litið á það sem skyldu utanrrn. að gera allt sem í þess valdi stendur að verja hagsmuni Íslands á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það liggur alveg ljóst fyrir að sótt er að okkur í ýmsum málum og við þurfum að hafa okkur alla við til þess að halda á þessum réttindum. Það er t.d. sótt að stofnanakerfi samningsins, tveggja stoða kerfinu sem varðar stjórnskipun okkar og stjórnarskrá. Ber okkur ekki að verjast því? Ber okkur ekki að líta til þess að Evrópusambandið er að stækka, vitandi að fríverslunarsamningar okkar við mörg lönd munu falla niður, vitandi að þegar það gerist þá verður staða okkar verri en hún var áður? Að sjálfsögðu eru það okkar skyldur og það er nákvæmlega það sem við erum að gera.

Við erum líka á grundvelli EFTA-ríkjanna að fara í gegnum þær breytingar sem hafa orðið og um þetta liggja fyrir ágætar skýrslur. Eins og kom fram í einni fyrirspurn hv. þm. erum við að efla samstarf við Dani. Já, við erum að efla samstarf við Dani vegna þess að við teljum það góða leið til þess að halda á rétti okkar. Fyrir liggur að einn af starfsmönnum utanríkisþjónustunnar mun fara til starfa í dönsku utanríkisþjónustunni núna í aprílmánuði og starfa með Dönum í formennskutíð þeirra. Það er að sjálfsögðu gert í sama skyni, þ.e. til þess að verja framtíðarhagsmuni Íslands.

Ég tel að hér hafi verið algjörlega rétt staðið að málum. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn til þess að gera hv. utanrmn. nákvæma grein fyrir því hvernig staðið hefur verið að málum, en hér er um mikilvæga framtíðarhagsmuni Íslands að ræða og það er skylda utanríkisþjónustunnar að verja þá.