Átak til að auka framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 16:34:16 (4911)

2002-02-19 16:34:16# 127. lþ. 80.11 fundur 116. mál: #A átak til að auka framboð á leiguhúsnæði# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[16:34]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Sú sem hér stendur og mælir fyrir þessari till. til þál. um átak til að auka framboð á leiguhúsnæði átti fyrir nokkrum árum alllanga veru í þessum ræðustól, skipti hún nokkrum klukkutímum, en tilefnið var að núv. ríkisstjórn var þá að loka félagslega húsnæðiskerfinu sem þjónað hafði láglaunafólki allt frá árinu 1929 og sem hafði orðið til þess að fátækt fólk sem ekki gat komið sér þaki yfir höfuðið hafði til þess möguleika. Það var á árinu 1998, að mig minnir, sem ríkisstjórnin réðst í það óhæfuverk að loka félagslega húsnæðiskerfinu. Ég hef reyndar aldrei skilið, herra forseti, að það skuli hafa verið undir forustu Framsfl., að hann skuli hafa látið draga sig til þeirra verka.

Efni tillögunnar nú er að standa fyrir átaki til að auka framboð á leiguhúsnæði og það er allur þingflokkur Samfylkingarinnar sem stendur að henni.

Afleiðingar þess að félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður fyrir nokkrum árum hafa ekki látið á sér standa. Það eru langir biðlistar eftir leiguhúsnæði, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Það eru um 2.000 einstaklingar og fjölskyldur á biðlistum eftir því að fá þak yfir höfuðið í leiguíbúðum. Leigumarkaðurinn hefur frá þessum tíma verið mjög þröngur vegna þess að þeir sem fengu aðstoð í gegnum félagslega húsnæðiskerfið til að koma sér upp húsnæði, ýmist eignarhúsnæði eða þá leiguhúsnæði, áttu ekkert skjól eftir að félagslega húsnæðiskerfinu var lokað. Það fólk átti ekki möguleika á að koma sér upp íbúðum á almenna markaðnum, og margir áttu einnig í erfiðleikum með að koma sér upp húsnæði jafnvel þó að hæstv. félmrh. hefði opnað fyrir ákveðinn valkost fyrir fólk innan ákveðinna tekjumarka, þ.e. að það fengi 65% lánað í húsbréfakerfinu og það sem á vantaði upp að 90% yrði með sérstöku viðbótarláni.

Herra forseti. Það var ekki bara að leigumarkaðurinn þrengdist og eftirspurn eftir leiguíbúðum jykist heldur leiddi þetta til þess að verð á leiguíbúðum rauk upp um tugi prósenta þannig að fólk sem er ofurselt leigumarkaðnum átti í miklum erfiðleikum með að standa undir leigunni þegar verulegur hluti af tekjum þess fór í að borga þá hækkun sem varð á leigumarkaði.

Herra forseti. Ég og fleiri þingmenn verðum vitni að sorgarsögum nánast á hverjum einasta degi hjá einstaklingum og fjölskyldum sem eru nánast á götunni og hafa ekki húsaskjól, einmitt vegna þess að þeir valkostir í húsnæðismálum sem þetta fólk þarf á að halda eru ekki til og það sér enn fram á langa bið eftir húsnæði.

Biðlistarnir sem ég nefndi komu fram í skýrslu nefndar á vegum félmrn. í apríl árið 2000. Þar kom fram að 2.000 einstaklingar og fjölskyldur væru á biðlistum eftir leiguíbúðum. Hjá Öryrkjabandalaginu einu saman eru t.d. 440 manns á biðlista og hjá Félagsstofnun stúdenta voru fyrir einu og hálfu ári 835 á biðlista, þegar ég kynnti mér það, og ekki hægt að leysa þörf nema 50--60% nemenda.

Það sem við viljum, herra forseti, er að gert verði átak til að fjölga leiguíbúðum og stuðlað verði að viðráðanlegum leigukjörum í samráði við sveitarfélögin, verkalýðshreyfinguna og félagasamtök. Í því skyni verði gerð fjögurra ára áætlun með það að markmiði að leysa húsnæðisvanda þeirra sem eru á biðlistum eftir leiguhúsnæði og þeirra sem nú eiga hvorki rétt til almennra né félagslegra lána.

Það er stór hópur, herra forseti, sem lendir á milli í þeirri húsnæðisaðstoð sem við bjóðum upp á í þjóðfélaginu. Það er fólk sem ekki á rétt inni í því kerfi sem félmrh. kom á fót, þ.e. þessi 90% lán, og fólk sem getur heldur ekki komið sér uppi húsnæði í gegnum húsbréfakerfið. Við leggjum til að heimilt verði að veita sveitarfélögum, félagasamtökum og öðrum aðilum sem hafa það að markmiði að koma á fót leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum fyrir láglaunafólk 95% lán enda lúti þeir reglum um eftirlit með byggingarkostnaði, leiguverð og þinglýsingu á leigusamningi.

Við leggjum til að vaxtaendurgreiðslur og/eða stofnstyrkir sem og húsaleigubætur tryggi að leigukjör fari ekki yfir 6% af stofnverði. Það er ákaflega mikilvægt atriði, herra forseti, sem ég og félagar mínir í þingflokki Samfylkingarinnar höfum verulegar áhyggjur af, þ.e. hvernig þessi ríkisstjórn hefur verið að hækka vexti á leiguíbúðum á sl. 2--3 árum. Í 40 ár var um það almenn sátt í þjóðfélaginu, líka á tímum erfiðleika og þenslu í þjóðfélaginu, að stilla vaxtakjör á leigubúðum fyrir láglaunafólk þannig að þau væru ekki hærri en 1%. Nú hefur hins vegar borið við á undanförnum árum að vextir á leiguíbúðum hafa smátt og smátt verið að hækka úr 1% í 4,9%. Það þýðir auðvitað verulega hækkun á leiguverði sem kemur fram í útgjöldum og auknum kostnaði sveitarfélaga eða félagasamtaka sem byggja þessar íbúðir. Og ég get tekið dæmi af leigugreiðslu fyrir 60 m2 íbúð sem hækkar úr tæpum 25 þús. á mánuði í tæp 42 þús., þ.e. um rúmar 16 þús. á mánuði eða um 192 þús. á ári ef ekkert er að gert, miðað við að vextirnir fari úr 1% í 4,9%.

Ráðherra telur sig vera í átaki til að koma upp leiguhúsnæði. Þrátt fyrir að stefnt sé að því að vextir af leiguíbúðum miðist við markaðsvexti hefur hann hleypt af stað því sem hann kallar átak í að koma upp leiguíbúðum þar sem 300 eða 400 íbúðir, minnir mig, eiga að bera 3,5% vexti. Það eru allt of háir vextir, herra forseti, til að hægt sé að bjóða láglaunafólki íbúðir á viðráðanlegum kjörum. Það átak sem ráðherrann er hér að nefna, herra forseti, er því ekki í líkingu við það sem við í Samfylkingunni viljum ráðast í.

Við leggjum líka til að stimpilgjöld falli niður hjá framkvæmdaraðilum leiguíbúða enda verði slík niðurfelling skilyrt við útleigu á íbúðum. Það sem þó hefur verið gert síðan þessi tillaga var lögð fram er að skattlagning á húsaleigubótum hefur verið felld niður og það ber svo sannarlega að þakka hæstv. félmrh. Það munar verulega, sérstaklega þegar vextirnir hafa hækkað svona gífurlega. En þrátt fyrir að skattlagning á húsaleigubótum hafi verið felld niður gerir það ekkert í átt til þess að vega upp á móti því sem hækkun vaxtanna mælir í leigukostnaði hjá láglaunafólki.

Við viljum rýmka tekjuskilyrði fyrir rétti til leiguíbúða fyrir fólk sem á hvorki rétt til almennra né félagslegra lána og við viljum að ríkissjóður greiði 85% þess framlags sem þarf til að ná fyrrgreindu markmiði og að sveitarfélögin greiði 15%. Þetta er það átak sem við teljum nauðsynlegt, herra forseti, að ráðast í til þess að létta nokkuð á því neyðar\-ástandi sem fátæku fólki er komið í hér á landi. Ég held, herra forseti, að þetta sé eitt af brýnustu verkefnunum sem fara verður í þegar búið er að koma þessari ríkisstjórn frá, þ.e. að breyta aðgerðum í húsnæðismálum í þágu fólks með lágar og meðaltekjur.

Herra forseti. Ég held að sveitarfélögin hafi bundið mjög miklar vonir við það sem var rætt um þegar félagslega kerfið var lagt niður, þ.e. svokallaða stofnstyrki. En, herra forseti, það bólar ekkert á þessum stofnstyrkjum sem var reiknað út samkvæmt útreikningum frá ráðuneytinu sjálfu að yrðu að vera 2 millj. með hverri íbúð til að mánaðargreiðslur leigjenda hækkuðu ekki frá því sem var þegar vextir voru 1% og lánað var 90% til leiguíbúða. Þess vegna held ég, herra forseti, að við stöndum frammi fyrir því og munum gera á næstu árum að uppbygging á leiguíbúðum verði því miður mjög hæg nema miklar breytingar verði á. Maður sér hins vegar ekki fyrir sér, herra forseti, miðað við þær aðgerðir sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir og liggur fyrir að á að fara í af hálfu ríkisstjórnarinnar að þar á verði veruleg breyting.

Ég hef heyrt, herra forseti, að þeir sem vinna við húsnæðismál á Íslandi hjá sveitarfélögum sakni margir mjög þess kaupleigukerfis sem var komið á fót í tíð Alþýðuflokksins vegna þess að þetta kaupleigukerfi hafði mikla valkosti fyrir fólk. Fólki voru leigðar íbúðir fyrstu fimm árin meðan það var að styrkja efnahag sinn og koma sér upp fjölskyldu og eftir þann tíma gat það fest kaup á viðkomandi íbúð. Ég held að margir gætu nýtt sér þann kost ef hann væri fyrir hendi. Hann var líka kostur fyrir ýmsa sem gátu ekki komið sér upp íbúðum í gegnum almenna kerfið. Þess vegna held ég að menn hljóti að horfa til þess, ef hér kemst til valda ríkisstjórn sem hugsar um hag láglaunafólks og er félagslega sinnuð, að horft verði til þess að setja upp einhvern valkost í líkingu við kaupleigukerfið sem ég held að hafi verið mjög mörgum til hagsbóta.

Herra forseti. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar. Ég held að hér sé á ferðinni mjög mikið hagsmunamál fyrir láglaunafólk og kannski er eitt brýnasta verkefni næstu missira að bæta húsnæðiskerfi þessa fólks. Það er auðvitað til skammar fyrir þjóðfélagið að við bjóðum láglaunafólki upp á að hafa fyrir strit og vinnu allan heila daginn kannski 80--100 þús. kr. og síðan er því boðið upp á að vera ofurselt almenna leigumarkaðnum þar sem það þarf kannski að borga 70--80 þús. kr. á mánuði fyrir að hafa þak yfir höfuðið. Þetta er ekki manneskjulegt, herra forseti. Í löndunum í kringum okkar, t.d. hjá hinum Norðurlandaþjóðunum, hafa ríkisstjórnir lagt metnað sinn í að fólk hafi valkosti þannig að allir hafi kost á því að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Leigumarkaðurinn þar eru miklu skipulagðari en hér á landi. Þetta er mál sem þarf því að taka á.

Auðvitað kostar þetta verulega peninga. Við gerum grein fyrir því í þessari tillögu en þetta er mál sem við viljum setja í forgang og það skal ekki standa á okkur að finna fjármagn til þess að ráðast í þetta átak ef tillagan mætir skilningi á hv. þingi og verður samþykkt. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. félmn.