Tilraunaveiðar á miðsjávartegundum í úthafinu

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 18:54:59 (4945)

2002-02-19 18:54:59# 127. lþ. 80.13 fundur 161. mál: #A tilraunaveiðar á miðsjávartegundum í úthafinu# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[18:54]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Sú till. til þál. sem við ræðum hér um tilraunaveiðar á miðsjávartegundum í úthafinu er vissulega tímabær. Það er auðvitað furðulegt að við skulum ekki setja kraft í það að rannsaka hafsvæðið í kringum okkur og þá möguleika sem þar eru í boði. Vitað er að í hafinu bæði vestur og suður af landinu er mikill lífmassi. Það hefur verið vitað lengi. Hingað til hefur því verið borið við að við ættum ekki öflug rannsóknaskip til að rannsaka þetta lífríki á djúpmiðunum vestur og suður af landinu og þeir fáu leiðangrar sem farnir hafa verið í þessa veru á undanförnum árum hafa yfirleitt verið farnir með leiguskipum, þar sem tekin hafa verið á leigu öflugri skip en Hafrannsóknastofnun hefur ráðið yfir.

Lengi hefur verið ljóst að miklar lóðningar eru af alls konar lífi á djúpsvæðum hafsins. Vafalaust má nýta þær bæði til manneldis og mjölvinnslu. Þess vegna er það svo mikilvægt að við drífum í því að gera slíkar rannsóknir, stunda þær skilmerkilega og eftir markvissum áætlunum. Nú getum við ekki lengur borið því við að við eigum ekki til öflugt skip til að sinna þeim rannsóknum því nú er það til. Ég vék að því hér í ræðu fyrr í dag að þó að nokkur prýði væri af hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni liggjandi við miðgarðinn í höfninni í Reykjavík svona dags daglega, þá væri það nú farið að fara ansi mikið í taugarnar á manni að vita hvaða möguleika þetta skip hefur til þess að rannsaka lífríki hafsins, að það skuli ekki vera betur nýtt en svo að það skuli dag eftir dag liggja til sýnis í Reykjavíkurhöfn.

Áætlanir um útgerð skipsins eru 120 dagar á þessu ári sem eru öruggar rannsóknir en gert ráð fyrir að skipið verði gert út í rúma 140 daga en óvissa er um 20 daga, þ.e. hvers konar rannsóknir verði framkvæmdar. Þetta er nú öll nýtingin á þessu dýra og mikla skipi sem gefur okkur svo mikla möguleika eins og tæknin um borð í því er. Þetta skip hefur mikinn togkraft og mikla og nýja tækni, bæði til að kortleggja hafsbotninn með fjölgeislamæli og ekki síður til að kanna það sem í djúpunum er. Ekki skortir okkur lengur kraftinn og stærð skipsins gefur möguleika til að halda því úti þótt eitthvað smávegis sé að veðri. Það hefur reyndar sýnt sig nú þegar í rannsóknarleiðangri á loðnu, þó að tíð væri ekki sem allra best, þá tókst að ljúka þeim rannsóknarleiðangri mjög vel á skömmum tíma, mun skemmri tíma en það hefði tekið með eldri skipum Hafrannsóknastofnunar.

Einnig er það vitað sem 1. flm. tillögunnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, vék að hér áðan að það mun að öllum líkindum verða skortur á fiskimjöli og lýsi í framtíðinni ef svo heldur fram sem horfir að fiskeldi vaxi hröðum skrefum. Þó að við Íslendingar höfum ekki enn þá verið stórir í fiskeldi, þá ætlum við okkur þar framtíð. Norðmenn hafa náð þar verulega miklum árangri og Færeyingar einnig. Og með vaxandi fiskeldi þarf meira fóður. Það er ekki bara að meira fóður þurfi í fiskeldi, heldur erum við smátt og smátt að nýta meira af uppsjávartegundunum til manneldis. Og það er auðvitað vel. En það mun þá líka þýða að minna verður til mjölframleiðslunnar. Þess vegna er það örugglega rétt sem sagt er í greinargerð með þáltill. að vöntun mun verða á hráefni til mjölvinnslu og það er auðvitað ekki sama hvers konar hráefni fæst til mjölvinnslunnar. Til að það gangi vel í fiskafóður þurfa þær afurðir að vera nokkuð ferskar. Það er því mjög mikilvægt að það sem hér er lagt til í tillögunni varðandi rannsóknir og tilraunaveiðar á djúpsjávarmiðum fyrir vestan og sunnan landið verði framkvæmt. Eins og ég sagði áðan skortir okkur ekki skipakostinn, okkur skortir sennilega ekki veiðarfærin og okkur skortir ekki mannskapinn. Hann er ráðinn á hafrannsóknaskipið þegar í dag og er þar á launum. Það skortir frumkvæði íslenskra stjórnvalda til að nýta sér þetta góða tæki.

Norðmenn nýta rannsóknaskip sín að meðaltali í u.þ.b. 250--260 daga á ári. Að vísu nýta þeir svokölluð strandveiðieftirlitsskip heldur minna, en stærri skipin þar af leiðandi meira. Meðaltalið er um 250--260 dagar. Og það væri auðvitað mjög æskilegt að úthald þess öfluga rannsóknaskips sem við Íslendingar höfum eignast kæmist upp í það að vera 250--300 dagar á ári, það held ég væri mjög þarft.

Eins og þessi tillaga m.a. ber með sér, um vöntunina á kortlagningu hafsbotnsins og könnun á djúpsvæðunum sunnan við land, og eins og ályktað var um fyrir nokkuð mörgum árum þegar verið var að tala um nýtt hafrannsóknaskip á vegum Farmanna- og fiskimannasambandsins á djúpslóðinni sunnan við landið, þá skortir ekki verkefnin. Það skortir frumkvæðið og fjármuni eðlilega til að tryggja að slíkar rannsóknir geti farið fram. Ég álít að það muni skila sér margfalt til baka.

Nú eru uppi miklar áætlanir um að hefja þorskeldi og til þess þarf fóður. Og það fóður þarf að sækja í djúp hafsins og breyta til eldis.