Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 17:07:59 (5010)

2002-02-25 17:07:59# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[17:07]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að á hverjum þeim sem tekur að sér að dreifa pósti hvíla ákveðnar skyldur. Ég geri ráð fyrir að menn muni reyna að sinna þeim skyldum. Ég átta mig samt sem áður ekki alveg á því hvernig ætti að bregðast við þegar enginn er heima, þ.e. þegar pósturinn kemur og enginn er heima. Ég áttaði mig ekki á því hvort verið væri að tala um að bæta mætti þá þjónustu með því að leita að viðkomandi í bænum. Ég veit ekki hvernig ætti að fara að því. Í sjálfu sér fælist mikil þjónusta í því en ég veit að í tilvikum sem þessum eru skildir eftir miðar á heimilum viðkomandi og þeim gerð grein fyrir því að reynt hafi verið að koma böggli eða sendingu til skila og viðkomandi geti mætt á tiltekinn söfnunarstað, hvort sem það er kallað pósthús í dag eða eitthvað annað, og sótt þessa böggla. Ég held að í sjálfu sér hafi póstþjónustu farið fram á þessu sviði.

En síðan getum við rætt það, séstaklega í ljósi hinnar miklu umræðu um svokallaða einkavæðingu o.s.frv., að vart nokkur maður vill taka þessi orð sér í munn í ljósi atburðanna undanfarið. Út frá því má svo sem skilja að hv. þm. hafi áhyggjur.

Ég held, virðulegi forseti, að ýmislegt megi um það frv. segja sem hér er til umræðu en frv. verður ekki sakað um að verið sé að reyna að færa verkefni frá Íslandspósti yfir á önnur fyrirtæki.