Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 17:48:03 (5022)

2002-02-25 17:48:03# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[17:48]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Fram kom hjá hv. þm. að starfsemi póstsins hefur dregist saman um 40%. Það stafar fyrst og fremst af því að eftir að fyrirtækin skiptust upp skipti Síminn ekki lengur við Póstinn á sama hátt og áður var. Þarna myndast ákveðið bil sem er alveg hárrétt. Ef ég man tölur rétt hefur Pósturinn verið rekinn með líklega liðlega 100 millj. kr. tapi tvö síðustu ár þannig að þar er um verulegar upphæðir að ræða. Það er vissulega rétt að fjöldadreifingar hafa hækkað. Það er ekkert endilega tengt þessari skipulagsbreytingu að þær hafi hækkað. Þær eru líka í samkeppni eins og komið hefur fram við ákveðin dreifingarfyrirtæki. Nú eru blöð að dreifa o.s.frv. Það er líka alveg ljóst.

Þá er spurningin: Hvað er til ráða? Eitt ráðið væri hugsanlega það að ríkisvaldið greiddi niður póstþjónustu í landinu. Það er einn möguleiki. Þá gæti verið algerlega óbreytt ástand ef ríkissjóður væri tilbúinn að leggja fyrirtækinu til kannski 200 millj. á ári hverju og þá væri hægt að reka allt með óbreyttu ástandi. En það er líka spurning hversu lengi það gæti gengið vegna þess að árið 2006, ef ég man rétt, kom ákveðið frelsi í þessa dreifingu og það er m.a. þess vegna sem fyrirtækið er að undirbúa sig undir þá samkeppni.