Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 19:01:30 (5041)

2002-02-25 19:01:30# 127. lþ. 81.15 fundur 520. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir og náttúrustofur) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[19:01]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið og tel að búið sé að skýra ýmislegt í vinnslu þessa máls og sumum þeim spurningum sem hér hafa komið upp tel ég að menn hafi svarað í þeirri vinnu sem átt hefur sér stað í umhvn. á síðasta þingi. En það er alveg ljóst að frv. felur í sér að verið er að efla náttúrustofurnar. Verið er að skilgreina betur verkefni þeirra og verið er að fela þeim ný verkefni. Einnig er verið að skjóta lagaheimild undir að þær geti gefið út gjaldskrá til að innheimta fyrir þjónustu sína. Þetta sjá menn í 4. gr.

Einnig er verið að setja stofurnar þannig upp að sveitarfélögin skipi alla stjórnarmennina, en í dag skipa sveitarfélögin tvo stjórnarmenn af þremur og ráðherra einn, sem er formaður. Ég get ekki séð að hægt sé að segja að með því séum við að auka miðstýringu. Alls ekki. Ef eitthvað er þá erum við að auka dreifræði með því að allir stjórnarmennirnir séu skipaðir af sveitarfélaginu sem stendur að stofunni en hins vegar með fjárframlögum frá ríkinu.

Ég tel að menn þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að ríkið muni ekki standa við sitt. Það kemur mjög vel fram í 3. gr. að gera eigi samninga á milli sveitarfélaganna og ríkisins um rekstur náttúrustofu. Og það kemur líka alveg greinilega fram við hvað á að miða varðandi fjármálin í því sambandi. Þar er sagt að sveitarfélögin eigi að koma með upphæð sem skal miðast við 30% af framlagi ríkisins af því að ekki er talið eðlilegt að ríkið eitt borgi en sveitarfélögin ekkert á móti. Við höfum aðeins skoðað hvað sveitarfélögin hafa verið að borga í þetta, af því hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi að þetta mætti ekki sliga sveitarfélögin sem stæðu í rekstri á náttúrustofu. Því miður hafa sveitarfélögin ekki sameinast á stórum svæðum bak við náttúrustofu, það var meiningin með þessu öllu í upphafi að heilu kjördæmin tækju sig saman um eina náttúrustofu. En það er ekki þannig. Það er yfirleitt eitt sveitarfélag sem stendur að baki náttúrustofu.

Náttúrustofa Austurlands, sem er staðsett í Neskaupstað, borgaði árið 2000 46% af kostnaðinum, hún er því langt yfir þessum 30%. Á Vestfjörðum borgaði náttúrustofan í Bolungarvík 34,1% samkvæmt útreikningum okkar árið 2000.

Eins og kom fram í máli mínu mun ég beita mér fyrir því að styrkja stofurnar enn frekar með því að þær fái til viðbótar 2 millj. kr. á næsta ári í gegnum fjárlagagerðina á stofu og 30% af því eru 600 þús. kr. eða svo. Ég tel því að með þessu frv. og þeim yfirlýsingum hér um að við ætlum að styrkja stofurnar með 2 millj. kr. framlagi á hverja stofu, þá sé verið að styrkja þær allverulega. Byggðamálin eru einmitt að miklu leyti hvatinn að frv. vegna þess að öll ráðuneyti hafa verið að fara í gegnum starfsemi sína til að sjá hvað við getum gert til þess að styrkja byggðirnar. Menn hafa nú ekki verið mjög brattir með að flytja heilu ríkisstofnanirnar út á land. Frekar hefur verið litið til þess að styrkja þá starfsemi sem fyrir er eða setja upp það sem er nýtt úti á landi. Þetta er einmitt svolítið okkar svar við byggðamálunum, þ.e. að reyna að styrkja þær stofur sem fyrir eru með fjárframlögum.

Við höfum einnig fengið beiðni inn til okkar um að setja upp nýjar náttúrustofur sem kosta fjármagn. En við höfum frekar viljað taka þann pól í hæðina að styrkja þær stofur sem fyrir eru og nota fjármagn í það, af því þær stofur eru auðvitað litlar og það ber að hlúa betur að þeim þannig að þær geti aukið umsvif sín, af því þær eru mjög mikilvægar.

Varðandi reksturinn á stofunum, þá hafa þær fengið þessi framlög frá ríkinu í rekstur sinn, laun forstöðumanns og hluta af stofnkostnaði, en þær hafa líka fengið talsvert góðar upphæðir beint í gegnum fjárln. Alþingis. En náttúrustofan á Austurlandi sem er í Neskaupstað hefur fengið framlag til hreindýrarannsókna, 3,5 millj. kr. á árinu 2001 og sömu upphæð 2002, á yfirstandandi ári, en náttúrustofa Suðurlands fékk 5 millj. kr. til rannsókna og kortagerðar á jarðskjálftasvæðum á fjáraukalögum á síðasta ári. Náttúrustofan í Bolungarvík á Vestfjörðum hefur fengið 5 millj. kr. árið 2001 og 3,5 millj. kr. á yfirstandandi ári til rannsóka á refum og nú hafa rannsóknir á gróðri aukist þar. Náttúrustofan í Stykkishólmi, sem er náttúrustofa Vesturlands hefur fengið á yfirstandandi fjárlagaári 3,5 í rannsóknir á minkastofninum. Þessar stofur hafa sýnt það að þær geta sinnt sérhæfðum verkefnum sem að mörgu leyti tengjast þeirra svæði, eins og hreindýrarannsóknirnar fyrir austan og rannsóknirnar á Hornströndum fyrir vestan, þær geta sinnt slíkum rannsóknum með mjög glæsilegum og eðlilegum hætti. Ég tel því að menn þurfi ekki að óttast þetta frv., heldur ef eitthvað er að styðja það og hafa ekki áhyggjur af því.

Það er rétt sem hér kom fram að í upphafi þegar við komum fram með frv. höfðu ýmsir forstöðumenn áhyggjur af efni þess. Að mínu mati mistúlkuðu þeir ýmislegt sem var í því og hugsanlega misskildu, en sá ótti hefur minnkað mjög verulega í dag. Og sumir þessara aðila, t.d. stjórnarformenn á stofunum, hafa komið til mín og átt viðræður um þessi mál og það er allt annað hljóð í þeim núna. Fólk hefur aðeins áttað sig betur á því í hverju frv. felst og er mun jákvæðara í dag. Ég vona því, hæstv. forseti, að málið nái að klárast á yfirstandandi þingi. Það munaði mjög litlu að það kláraðist á síðasta þingi, en vegna tímaskorts, tel ég, náðist það ekki. Þetta er framsýnt frv., styrkir stofurnar, bæði með fjárframlögum og með verkefnum og ríkið mun standa við sína samninga, menn þurfa ekki að efast um það. Það höfum við sagt og það kemur mjög skýrt fram í frv. hvernig á að standa að því. Ég tel því að frv. sé hluti af framlagi okkar bæði til náttúruverndar í landinu og til byggðamála almennt.