Boðað frumvarp um stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 13:52:01 (5052)

2002-02-26 13:52:01# 127. lþ. 82.94 fundur 363#B boðað frumvarp um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hugmynd hæstv. sjútvrh. um að sá sem hér stendur ráði skipan í báðum liðum er mjög góð og minnir mig á sögu af konu ofan úr sveit sem var dregin á fótboltaleik hér í höfuðstaðnum en hafði ekki mikið séð af slíkum fyrirbærum áður. Gangur leiksins var útskýrður fyrir henni, að hann snerist um að koma boltanum í netið. Eftir að gamla konan hafði horft á þetta um hríð spurði hún: Af hverju í ósköpunum hjálpast mennirnir ekki að? Þá hefði auðvitað gengið betur að koma boltanum í netið.

Þannig er þetta auðvitað líka með sjávarútvegsmálin. Ef menn hjálpuðust að mundi væntanlega ganga betur að koma einhverju farsælu markmiði fram. Það hefur núverandi ríkisstjórn ekki gert. Hún hefur í raun algerlega sagt í sundur allar tilraunir til að ná griðum um þetta mál og slegið á útréttar hendur sem fram hafa verið færðar þar um.

Það liggur algerlega ljóst fyrir að ekki getur orðið sátt um að geirnegla hér og festa í sessi óbreytt kerfi. Það er það sem verið er að gera og reyndar ganga lengra með því að opna á heimildir til enn hraðari og frekari samþjöppunar í sjávarútvegi heldur en núgildandi lög heimila. Allir sem eitthvað vita um sjávarútveg á Íslandi vita að það er ekki leiðin til sátta.