Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 14:25:38 (5058)

2002-02-26 14:25:38# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég skal gera mitt til þess að allir komist að í þessum stuttu andsvörum sem við höfum til að skiptast á skoðunum við hæstv. ráðherra.

Ég vil fyrir það fyrsta óska hæstv. ráðherra til hamingju með að vera loksins búin að leggja fram þáltill. um byggðamál sem við höfum beðið lengi eftir. Ég mun svo koma að áætluninni síðar þegar ég fæ tækifæri og kemst á mælendaskrá.

Eitt vildi ég spyrja hæstv. ráðherra strax út í. Hæstv. forsrh. lagði fram síðustu byggðaáætlun. Hæstv. iðnrh. tók skýrt fram að þetta væri fyrsta áætlun sín og þar af leiðandi hafi síðasta áætlun verið síðasta byggðaáætlun hæstv. forsrh. Þar segir m.a. að síðasta áætlun hafi haft það að markmiði að treysta búsetu á landsbyggðinni. Svo kom þessi gullvæga setning:

,,Stefnt verði að því að fólksfjölgun þar verði ekki undir landsmeðaltali og nemi 10% til ársins 2010.``

Því vil ég spyrja hæstv. iðn.- og viðskrh.: Hvað gerir það að verkum að hæstv. ríkisstjórn fellur núna strax frá þessu göfuga markmiði? Hvað hefur breyst?