Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 14:28:33 (5061)

2002-02-26 14:28:33# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[14:28]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna er hv. þm. kominn inn á málaflokk sem varðar samgrh. (Gripið fram í.) Þó svo að örli á því í þessari byggðaáætlun að samgöngumál séu nefnd þá er að sjálfsögðu ekki verið að semja nýja samgönguáætlun með því að leggja fram byggðaáætlun í landinu. Það held ég að sé atriði sem allir geri sér grein fyrir. (Gripið fram í.)

Verklag Vegagerðar í sambandi við mokstursdaga er umdeilanlegt og hefur alltaf verið þannig. Ég veit það sem landsbyggðarþingmaður að upp koma mörg vafamál í sambandi við það hvernig þessar reglur eigi að vera. En ég ætla ekki að fara út í það í sambandi við þessa byggðaáætlun --- og er gott að koma því að strax --- að tala um samgönguáætlun í smáatriðum.