Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:10:24 (5086)

2002-02-26 15:10:24# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að mjög skynsamlegt sé hjá hv. þm. að leita til mín um ráð og ég skal fúslega reyna að veita þau þó að mér takist ekki að gera það að fullu leyti á þessari mínútu sem ég hef.

Ég nefndi áðan að það væru átta tölusett efnisatriði varðandi atvinnumálin sem gæfi að líta í gömlu byggðaáætluninni og mér tókst á einni mínútu að nefna aðeins tvö og gerði það meira og minna án þess að það væri nein vísindaleg yfirferð.

Ég held að að mörgu sé að hyggja í þessum efnum og ég hefði ekki talað eins og ég talaði hérna áðan, þar sem ég var raunar að hvetja þá sem sitja í iðnn. til að taka þessi mál föstum tökum, ég væri ekki að tala með þeim hætti ef ég teldi ekki að hægt væri að byggja nýtilegt plagg á þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Ég er sannfærður um að það er alveg hægt og það er mjög margt í tillögunni sem er gott og til framfara og það hafa allir viðurkennt, líka þeir sem gagnrýndu það harðast, svo sem bæjaryfirvöld á Ísafirði og einstakir þingmenn og fleiri. Það hafa allir bent á að margt er ágætt og nýtilegt í þessu plaggi og ég treysti því að hægt verði að byggja ofan á það þannig að það skapi raunverulega viðspyrnu fyrir byggðirnar í landinu.