Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:11:51 (5114)

2002-02-26 16:11:51# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:11]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ég sé sammála hv. þm. um það. Ég verð að leiðrétta aðeins það sem fram kom í máli hv. þm. Ég hélt því ekki fram og held því að sjálfsögðu ekki fram að fólk utan höfuðborgarsvæðisins vilji ekki lifa við nútímalegar aðstæður. Nútímalegar aðstæður eru jafnt á landsbyggðinni sem á höfuðborgarsvæðinu en aðstæður breytast og gildismat breytist.

Hvað varðar grunnþjónustu hlýtur krafan um ákveðna grunnþjónustu að aukast þegar gildismat breytist. Það sem ég átti fyrst og fremst við var að maður er manns gaman. Það að geta tekið þátt í menningarlífi, búa við félagslegt öryggi, heilbrigðisöryggi, aðgang að menntun og þar fram eftir götunum er einfaldlega krafa nútímans hvort heldur er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni.

Varðandi sjávarútveginn ætla ég ekki að fara í orðaskak um það við hv. þm. hvort Íslendingar vilji vinna í fiski eða ekki. Þó er ljóst að mörgum fiskvinnsluhúsum hefur gengið æðitreglega að fá landann til starfa þar, hvað svo sem kann að valda. Hvort það er af öryggisleysi eða einhverju öðru hygg ég að hvorki ég né hv. þm. getum svarað því að það hefur ekki verið kannað.

Ég vek jafnframt athygli hv. þm. á því að tel ég að einföldun sé að segja að eingöngu kvótakerfið hafi leitt til óöryggis í sjávarútvegi. Þróun úr sjávarbyggðum átti sér stað áratug á undan kvótakerfinu og í sjávarútvegi, eins og hv. þm. veit, hafa orðið miklar tæknibreytingar sem leiða til þess að störfum fækkar. Það er því einföldun að segja að hér sé aðeins um kvótakerfið að ræða þó það kunni að eiga sinn þátt, en þá eru það ekki síður tæknibreytingar og breytingar sem urðu fyrir daga kvótakerfisins.