Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:14:04 (5115)

2002-02-26 16:14:04# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þm. Hjálmar Árnason erum að sjálfsögðu sammála um að það sé ekki eingöngu kvótakerfinu um að kenna. Vil ég nú spyrja þingmanninn hvort hann telji ekki að sú breyting vegi mjög mikið sem hefur verið framkölluð af ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum á síðustu árum á allri grunnþjónustu. Má þar til nefna póstinn og símann, sem er þegar sem hlutafélagavæddur aðili farinn að veita minni þjónustu úti um land. Má þar til nefna strandsiglingar og frjálsræði í flugi sem hefur leitt til stórkostlegs samdráttar, þannig að þar er ekki farið að þjónusta nema örfáa pósta.

Þarna stendur hnífurinn í kúnni að mínu mati. Sem landsbyggðarmaður og búandi á svæðinu þá eru þetta skilaboð sem eru svo sterk til mín og það er fyrst og fremst það sem veldur mér áhyggjum, hvernig stjórnarmeirihlutinn heldur á grunnþjónustuþáttum. Ég var að spyrja hv. þm. um hvort hann gæti verið sammála mér um það. Þá gætum við nálgast einhverjar lausnir í hv. iðnn.