Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:45:47 (5157)

2002-02-26 17:45:47# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:45]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Umræðan um byggðamál er auðvitað nauðsynleg. Í gegnum tíðina hefur hins vegar verið rætt um þáltill. af þessu tagi og menn hafa oft orðið sammála um slíkar ályktanir. Þeim hefur verið fylgt eftir með ýmsum hætti en árangurinn hefur ekki orðið sá sem menn hafa vonast eftir.

Það sem ég ætla aðallega að ræða er sá vilji sem fram kemur í þessari ályktun, að sveitarfélögin í landinu verði stækkuð. Ég verð að segja að ég fagna því að viljinn til þess skuli koma fram í ályktuninni en mér finnst að hann hefði þurft að koma skýrar fram. Hvaða framgang vilja menn og hvaða markmiðum ætla menn sér að ná með stækkun sveitarfélaganna? Einnig hefði verið áhugavert að vita hvort hæstv. félmrh. er sammála því sem stendur í þessari ályktun. Þar er talað um að ríkisstjórnin vinni í samráði við forustu sveitarfélaganna í landinu að stækkun sveitarfélaganna og það verði gert með lagasetningu.

Hæstv. félmrh. hefur ítrekað sagt að hann sé ekki tilbúinn að skrifa upp á slíkar aðferðir. En það kynni að hafa orðið stefnubreyting hjá honum. Ég bið hæstv. iðnrh. því að upplýsa það, eða staðfesta öllu heldur. Varla er þetta sett á prent öðruvísi en að í ríkisstjórninni sé samþykki fyrir því að fara þessa leið. Ég hefði hins vegar viljað sjá að í þessari ályktun kæmi fram hvernig menn ætla að standa að þessu. Þá hefði þurft að liggja fyrir hvernig unnið yrði að málinu, hvaða markmið menn settu sér með stærð sveitarfélaganna eða stefnumörkun um með hvaða hætti slíkt yrði fundið út.

Ég er á þeirri skoðun að þetta sé eitt af stærstu atriðunum í sambandi við að styrkja byggð í landinu, að gera sveitarfélögin nægilega öflug og sterk til að þau geti séð fyrir þeirri þjónustu sem þarf til að þau geti tekið á þegar á þarf að halda í atvinnumálum. Þau þurfa að geta staðið undir þeim kröfum og standa við hana gagnvart stjórnvöldum, að öll þjónusta sé til staðar í þessum sveitarfélögum, að þar sé ákveðið menntunarstig og þjónustan í heilbrigðismálum sé samkeppnisfær við allt landið. Þetta vantar. Ég er sannfærður um að ekkert byggðarlag í þessu landi mun standast til lengdar öðruvísi en að hægt sé að bjóða upp á lágmarksþjónustu af þessu tagi. Það er kannski ekki rétt að kalla það lágmarksþjónustu heldur þarf að vera um að ræða sambærilegt umhverfi þannig að fólk vilji búa í viðkomandi sveitarfélagi, vilji ala þar upp börn sín, hafa möguleika á að koma þeim í framhaldsskóla. Á slíku svæði þarf að vera menningarlegt samfélag, skólamálin í lagi og öflugt atvinnusvæði. Þetta gerist ekki í þessum litlu sveitarfélögum um allt landið. Því miður er það ekki þannig.

Ég hefði viljað sjá eitthvað sem hönd væri á festandi. Mér finnst of hægt farið vegna þess að hér er ekkert sett fram um hvenær tillögur eigi að koma fram um þessa hluti. Mér finnst líka að ekki sé mikið að marka hluti sem eru settir fram með þessum hætti. Það er talað um að gera þetta á næstu árum. Þrátt fyrir allt er sagt að það eigi að hækka íbúatölu sveitarfélaganna með lagasetningu. Það er framför.

Fyrir liggur tillaga, sem kom til umræðu á síðasta þingi og bíður umræðu núna, um stækkun sveitarfélaganna. Ekki voru menn tilbúnir til að ganga það skref í fyrra. Kannski eru menn tilbúnir að gera það núna. Ég held að það væri a.m.k. ástæða til að menn skoðuðu það vandlega. Í þeirri tillögu er gert ráð fyrir að menn fái þriggja ára aðlögunartíma við að koma sveitarfélögunum upp í og yfir þúsund manns. Þar er ekki stigið lengra skref en svo. Það gæti hins vegar orðið til að ýta einhverjum hlutum af stað.

Ég held að því miður sé ekki ástæða til að fyllast óskaplegri bjartsýni í sambandi við umræðuna um þetta mál. Hins vegar er engin ástæða til að kvarta yfir því sem gott er sagt, sem er ýmislegt. Mig langar til að koma að einu sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á. Ég gerði það fyrir nokkrum dögum við umræður sem hér fóru fram en fékk ekki andsvör frá hæstv. iðnrh. Mér finnst svolítið ankannalegt að lesa það sem stendur hér á bls. 3 þar sem talað er um fjölbreytt atvinnulíf. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Þá er nauðsynlegt að stefna stjórnvalda í atvinnugreinum sem eru þýðingarmiklar á landsbyggðinni, svo sem landbúnaði og sjávarútvegi, dragi ekki úr nýliðun, frumkvæði og fjárfestingum í fámennum byggðarlögum þar sem fárra annarra atvinnukosta er völ.``

Hvað segir þetta? Ég held að ekki sé hægt að misskilja þetta. Þetta hlýtur að þýða að stefna stjórnvalda megi ekki koma í veg fyrir nýliðun í sjávarútvegi. Hins vegar er dálítið skrýtið að fletta upp á bls. 8 í sama plaggi þar sem stendur undir liðnum b. Sjávarútvegur:

,,Huga þarf að stöðu nokkurra fámennra byggðarlaga sem eru háð útgerð smábáta og viðkvæm eru fyrir áhrifum af flutningi aflamarks milli byggðarlaga. Við endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða er mikilvægt að tryggja þessum byggðarlögum áfram aðgang að aflamarki sem hefur verið til ráðstöfunar fyrir staðbundna útgerð og fiskvinnslu. Slíkt aflamark á að vera tímabundið, óframseljanlegt og endurnýjun þess þarf að tengjast frammistöðu.``

Mér finnst að hæstv. iðnrh. þurfi að útskýra hvað átt er við. Á einum stað er talað um að tryggja þurfi nýliðun í atvinnuvegum á þessum stöðum til að tryggja framgang atvinnulífsins þar en á öðrum stað er talað um að aflamark eigi að vera til ráðstöfunar til að hjálpa áfram starfsemi sem rekin hefur verið á þessum stöðum. Þetta rekst hvort á annars horn.