Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:16:20 (5164)

2002-02-26 18:16:20# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:16]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er býsna athyglisvert þegar hver þingmaður Sjálfstfl. á fætur öðrum kemur hér upp og lýsir yfir efasemdum og jafnvel andstöðu og fyrirvörum við þá tillögu sem hér er til umræðu. Mér fannst hv. þm. Kristján Pálsson að hluta til tala mjög skýrt í andstöðu við ákveðna þætti í tillögunni en það kom hins vegar ekki mjög skýrt fram í máli hans hvort hann væri einn af þeim sem í þingflokki Sjálfstfl. lýstu yfir fyrirvara eða miklum fyrirvara eða á hvaða stigi sá fyrirvari er, það liggur ekki ljóst fyrir. Það er því nauðsynlegt, herra forseti, að fá það fram hvort hv. þm. er í hópi þeirra þingmanna Sjálfstfl. sem hafa fyrirvara á þessari tillögu.

Það er einnig athyglisvert og nauðsynlegt ef hv. þm. hefur tíma til í svari sínu að gera betur grein fyrir þeim orðum sínum að hann sjái ekki betur en Byggðastofnun sé að liðast í sundur eftir flutning til Sauðárkróks.