Málefni Landssímans

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 13:33:04 (5249)

2002-02-27 13:33:04# 127. lþ. 83.91 fundur 364#B málefni Landssímans# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. hélt því fram í umræðum á hinu háa Alþingi í fyrradag að upplýsingar sem millistjórnandi hjá Símanum veitti fjölmiðli réttlættu að fullu brottvikningu hans. Þar vorum við hæstv. forsrh. ósammála. Látum það þó liggja á milli hluta í bili.

Í sexfréttum Ríkisútvarpsins í gær kom fram að stjórnarformaður Símans og forstjóri hefðu sameiginlega komið á framfæri upplýsingum úr bókhaldi Símans um fyrrv. forstjóra fyrirtækisins. Þótt enginn eðlismunur sé á þessum upplýsingum er talsverður munur á tilgangi þeirra. Annars vegar er um að ræða upplýsingar sem voru veittar sökum þess að réttlætiskennd manns var misboðið en hins vegar var komið á framfæri upplýsingum um sérstakan áhuga fyrrv. forstjóra á trjárækt og fjarskiptum.

Í Kastljósi í gær lýsti hæstv. forsrh. því yfir að margt í rekstri Símans væri honum ekki að skapi. Má í því sambandi nefna hlutafjárkaup, lántöku og jarðasölu, auk þess að hann fann samkomulagi stjórnarformanns og hæstv. samgrh. um laun þess fyrrnefnda ýmislegt til foráttu.

Þá lýsti hæstv. forsrh. því enn fremur yfir að hann væri argur og pirraður yfir því að ýmsir menn sem hann hefði bundið vonir við hefðu komið óbragði í munn þjóðarinnar með störfum sínum. Því vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh., sitjandi samgrh., sem hefur verið ósínkur á traustsyfirlýsingar við stjórnarformann Símans og hæstv. samgrh. hingað til hvort það traust sé enn að fullu til staðar.