Hafsbotninn við Ísland

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:18:18 (5301)

2002-02-27 15:18:18# 127. lþ. 84.12 fundur 436. mál: #A hafsbotninn við Ísland# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Á allra síðustu árum hafa sjónir manna beinst að þeim möguleika að breytingar á hafsbotni af völdum stórvirkra veiðitækja kunni að hafa verulega mikil áhrif á útbreiðslu ýmissa nytjastofna. Austan Kamtsjatka t.d. og reyndar líka í Okhotskhafi hafa menn með gervitunglamyndum á síðustu áratugum greint verulegar breytingar á hafsbotni og tengja við þær breytingar sem menn sjá í samsetningu tegunda í afla.

Herra forseti. Ég er sannfærður um að spjöll á botni vegna veiðitækja hafa veruleg áhrif á útbreiðslu sumra fiskstofna. Ég er líka sannfærður, herra forseti, um að sú þróun sem við höfum séð í Norður-Atlantshafi varðandi ýmsa nytjastofna tengist að einhverju leyti því að búið er að eyðileggja búsvæðin sem þessir fiskar þurfa til þess að hafa góða vist í hafinu. Ef búsvæðin eyðileggjast, hvert á þá fiskurinn að leita? Hann hefur þá ekkert svæði fyrir sig að leggja, herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að ráðast í umfangsmiklar rannsóknir á þessum þáttum nú þegar við höfum yfir stóru og góðu skipi að ráða.