Málefni Ísraels og Palestínu

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 11:35:07 (5340)

2002-02-28 11:35:07# 127. lþ. 85.91 fundur 365#B málefni Ísraels og Palestínu# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[11:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þetta var nú meira galgopatalið um alvarlegt mál og merkilegt, að menn geti ekki komið sér hjá því að tala um jafnalvarlegt mál með öðrum hætti en galgopahætti af því tagi sem hér var um að ræða.

Auðvitað vekur það sérstaka athygli varðandi Ísland, ef menn hefðu einhvern minnsta snefil af vitsmunum eða þekkingu á utanríkisstefnu Íslendinga fyrr og síðar, þá vekur það mestu athygli að hæstv. utanrrh. skuli tala með þeim hætti sem hann gerir með stuðning allrar ríkisstjórnarinnar á bak við sig vegna þess að ríkisstjórn Íslands hefur gegnum tíðina viljað styðja fast og hart við bakið á Ísrael. Að Ísrael hefur verið þrengt. Ísland á forsögu, langa sögu, langt samstarf og hefur lengi stutt Ísraelsríki. Þess vegna er eftir því tekið þegar hæstv. utanrrh., ekki með neinum hávaða eða hrópum eins og sumir virðast kalla eftir, lætur í ljósi efasemdir frá Íslands hlið um framgöngu þessa vinaríkis okkar, Ísraels.

Menn taka eftir því að þetta ríki, Ísland, sem jafnan og ætíð hefur stutt fast við bakið á Ísrael, að meira að segja það og talsmaður ríkisins í þessum málaflokki talar með þeim hætti sem íslenski utanrrh. gerir. Eftir því er tekið. Það þarf ekkert að hvísla í eyru manna um slíka hluti. Með þessu er fylgst af þeim þjóðum sem í hlut eiga. Evrópusambandið hefur verið á réttu róli í þessum málum. Við þurfum ekki að koma því á neitt spor. Það hefur algerlega verið á réttu róli í þessum málum og Javier Solana hefur fylgt málinu fram með mjög kröftugum hætti. Þeir þurfa ekkert á okkar aðstoð að halda enda á réttri leið. Menn mega ekki tala hérna eins og þeir séu í menntaskóla, með galgopahætti um þessi mál í þingsalnum.