Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:29:46 (5388)

2002-02-28 15:29:46# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er að sjálfsögðu mjög flókin umræða, hvernig beita eigi skattkerfinu til að örva atvinnulífið. Það hefur verið rætt, m.a. hér í þingsölum á undanförnum dögum, hvernig eigi að styrkja atvinnulíf á landsbyggðinni. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem vilja leita þar einhverra ráða í skattalegu tilliti. Ég hef hins vegar haft þá skoðun sjálfur að ekki eigi að fara þá leið, hinu opinbera beri að stuðla að góðri stoðþjónustu á landsbyggðinni og síðan aðgangi að ódýru fjármagni, tryggu, ódýru fjármagni. Það er þetta sem stendur mörgum fyrirtækjum fyrir þrifum og einnig nýsköpunarfjármagni, og um þetta höfum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sett fram ýmsar hugmyndir og tillögur.

Það sem þessi mál sem hér eru til umræðu snúast um í grundvallaratriðum núna er á hvern hátt við getum tryggt frelsi vísindanna, frelsi vísindarannsókna. Og ég vara við því að færa valdið yfir þeim í of ríkum mæli í hendur markaðarins. Um það snýst málið frá mínum sjónarhóli.