Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:35:10 (5391)

2002-02-28 15:35:10# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég áttaði mig ekki á því þegar hv. þm. var að ræða um stofnun að hann væri þá að tala um ríkisstjórnina. Ég hef nú aldrei heyrt hv. þingmenn tala um ríkisstjórnina sem sérstaka stofnun í þjóðfélaginu.

Það sem við erum að fjalla um hér eru frv. til laga um umhverfi í rannsóknum og tækniþróun sem gerir ráð fyrir að stefnumörkunin sé unnin hér á þessum vettvangi, á Alþingi, með tilstyrk ríkisstjórnar og Vísinda- og tækniráðs. Það er ekki flóknara en svo. Mér finnst hv. þm. því kominn í hring þegar hann fjallar um þessi mál.

Hv. þm. hefur nú dregið í land núna varðandi Íslenska erfðagreiningu o.fl. en kjarninn í máli hans var: Það ber að hækka skatta á fyrirtæki, ég er á móti hugmyndum um að lækka skatta á fyrirtæki, ég vil að þeir séu hækkaðir til þess að hægt sé að láta meira fé renna til opinberra stofnana. Þetta var það sem hann sagði.

Nú segir hann: Ja, ég vil að það renni til vísindamanna sem starfa hjá opinberum stofnunum, ágætum stofnunum eins og á Keldum.

Í þessum frv. er gert ráð fyrir því að menn keppi. Það er mikil samkeppni. Ég endurtek það hér og hef sagt það margsinnis áður: Ég held að hvergi sé samkeppni meiri á Íslandi um nokkurn hlut en þetta rannsóknafé sem vissulega er takmarkað. Það er ekki aðeins samkeppni innbyrðis meðal vísindamanna á Íslandi heldur er hún háð í alþjóðlegu umhverfi sem er mjög kröfuhart og samkeppnin hörð á þeim vettvangi líka. Ég held að hvergi sé meira samkeppnishugarfar nokkurs staðar en meðal þeirra vísindamanna sem keppa um það fé sem við ræðum hér um. Þessi lög og frumvörpin sem við erum að kynna mæla fyrir um að settar verði skýrar reglur um hvernig þessu fé sé úthlutað, sanngirni gætt og faglegra sjónarmiða. Markmiðin þurfa að vera skýr og menn verða að vita að hvaða marki er stefnt með ráðstöfun á opinberu fé.

Ég tel því að umræðurnar í dag hafi gert mér kleift að skýra hvað í þessum frv. felst. Ég sé ekki annað, og dreg þá niðurstöðu af umræðunum, en að menn séu sammála um meginniðurstöðuna þó að við getum náttúrlega aldrei náð jafnlangt til vinstri og Vinstri grænir eru.