Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 16:48:22 (5459)

2002-03-04 16:48:22# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[16:48]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er engin launung að málið er ekki útrætt. Það hefur komið fram opinberlega eins og hv. þm. gerði grein fyrir með því að vitna í orð hæstv. forsrh. og ýmis atriði sem menn eiga eftir að ræða til enda eða eru með beina fyrirvara um. Ég vil nefna atriði sem eru fyrirvarar um og það er ákvæðið í frv. um að auka rétt fyrirtækja til að eiga stærri hlut aflahlutdeilda í einstökum fiskstofnum en nú er. Ýmsir eru á þeirri skoðun að ekki sé rétt að stíga það skref og ég hef lýst yfir efasemdum um það og hef fyrirvara hvað það atriði varðar, svo ég nefni dæmi.

Ég vil einnig minna á atriði sem meiri hluti endurskoðunarnefndar gerði tillögu um og ég sakna að ekki er getið um í frv. eða það muni koma fram á öðrum vettvangi síðar, eins og t.d. þá tillögu að setja verulegt fé til atvinnuuppbyggingar í þeim byggðarlögum sem mjög hafa stuðst við sjávarútveg, einkum til að efla atvinnu í öðrum atvinnugreinum. Það var mjög afdráttarlaus tillaga sem ég held að geti leitt ýmislegt gott af sér ef menn fara að henni.

Einnig má nefna þá tillögu meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar sem er efnislega sú sama og auðlindanefndin gerði tillögu um, þ.e. að hluti af því fé sem fæst fyrir veiðiheimildirnar renni til sveitarfélaga til að styrkja þau. Ég er mjög sammála því viðhorfi en sé að það er ekki í frv.