Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 16:57:27 (5464)

2002-03-04 16:57:27# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., SvH
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[16:57]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Við erum að ræða hér eitt stærsta mál sem uppi hefur verið á hinu háa Alþingi árum eða áratugum saman og hæstv. ráðherrar, utan einn, sýna því málefni slíka virðingu að enginn þeirra er viðstaddur. Maður hefði kannski haldið að hingað ætti erindi hæstv. forsrh. sem dró sáttafánann að húni á úthallandi vetri 1999. Þegar skoðanakannanir bentu til að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar væru andvígir því kerfi sem verið hefur við lýði, þá þurfi að finna aðferð til þess að slá ryki í augu fólks og það var gert með því að taka upp tillögu sem stjórnarandstaðan þáverandi hafði flutt um skipan auðlindanefndar. Öll vegferð þessa máls frá upphafi til enda hefur verið á eina bókina lærð. Mörkuð í upphafi að viðhalda nákvæmlega án þess að nokkur breyting væri sem skipti máli, því kerfi sem upprunalega var sett á.

Ég hef leitað í þessu frv. með logandi ljósi að einhverri þeirri breytingu sem teldist geta verið bitastæð í þessu sambandi og ekki fundið. Auðlindagjald á að vera skálkaskjólið, á að sýna breytinguna, einhverja nýja byltingu í þessum málum, en allt annað í kerfinu á að vera óbreytt. Ég hef margspurt og aldrei fengið svör: Vantar skattalagaákvæði í íslensk skattalög til þess að leggja á atvinnurekstur, hvort heldur útgerð og þá sérstaklega útgerðina, þá skatta sem hún getur borið eða sanngjarnt er að á hana séu lagðir? Ekkert svar.

Auðlindagjaldshugmyndin er notuð til þess að skjóta skildi fyrir allt hitt sukkið, að nú eigi að fara að borga fyrir að fénýta sjálfum sér þessa auðlind. Og hvert er svo gjaldið? Menn greinir dálítið á um það. Sumir segja að til að byrja með verði þetta 300 milljónir. Þá yrði ríkið í tíu ár að ná þeirri fjárhæð sem Samherjafrændinn fór með út úr þeirri útgerð. Það er nú öll hnyskjan.

[17:00]

En tökum eitt lítið dæmi um þá fjárhæð sem þeim er gert að greiða. Sjómannaafslátturinn, skattafsláttur sjómanna, er talinn nema 1.200--1.300 millj. kr., 1,2--1,3 milljörðum. Þeir sem predika nú um víða veröld að Ísland sé í fararbroddi þeirra sem vilja leggja af styrki í sjávarútvegi sneiða alltaf hjá þessari staðreynd. Auðvitað á útgerð að borga þetta. En ef útgerðin borgaði þannig að sjómaðurinn héldi sömu kjörum og áður, þá væri það ekki 1,2 eða 1,3 milljarðar heldur nærri tvöföld sú upphæð, allt upp að 2,2 milljörðum a.m.k. Og þá er talan komin yfir það sem menn í þykjustunni ætla að láta menn borga í auðlindagjald. Vegna þess að þetta munar ríkið eða hið opinbera þeirri fjárhæð, 1,2--1,3 milljörðum, sem það kostar ríkið í eftirgjöf á sköttum og svo vextir og skattar af allri þeirri fjárhæð sem ella þyrfti að greiða. Svo augljóst má þetta vera.

Síðan horfum við á leikritið sem þeir setja upp kvótahöfðingjarnir, leikrit Landssambands íslenskra útvegsmanna og ríkisstjórnar, þar sem LÍÚ-menn lýsa því yfir að þeir séu algjörlega andvígir þessu auðlindagjaldi. Eitt vita allir sem vilja vita með fullri vissu að ekkert slíkt frv. eins og þetta hefði verið lagt fram nema með fullu samþykki, vitund og vilja Landssambands íslenskra útvegsmanna og auðjöfranna þar, sem Sjálfstfl. hefur gengið á hönd. Samt eru menn að tala um sættir þegar málið virðist svo standa að allir séu eiginlega á móti þessu. Þjóðin er á móti því, þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar og menn í Framsfl., í sjálfum þingflokki þar. Samt stendur þann veg á að sættir eigi að takast af því að tilviljun virðist ráða því að aðeins einn hópur manna fylgi þessu af alhug og það er þingflokkur Sjálfstfl. Og þetta eru kallaðar sættir. Alveg frá upphafi var enginn sáttahugur í mönnum. Þetta var kosningabrella sem formaður Sjálfstfl. fann upp. Og alveg frá upphafi er hægt að fylgja vegferðinni eftir.

Innan auðlindanefndar var haldið á floti þeirri aðferð sem menn komust frá upphafi að niðurstöðu um, óbreyttu kerfi, skeytt við auðlindagjaldi sem allir vissu að yrði aðeins til málamynda. Auðvitað voru fulltrúar auðvaldsins látnir gera fyrirvara um útfærslu auðlindanefndarinnar þar sem þeir kusu sér gömlu aðferðina, aðferðina sem frá upphafi átti alltaf að viðhafa og hefur alltaf verið í gildi og er í gildi og á að vera í gildi samkvæmt þeim endapunkti sem nú virðist eiga að reka á málið.

Og svo kom endurskoðunarnefndin og passað var upp á að meiri hluta hennar skipuðu sauðtryggir fylgjendur sömu óbreyttu kvótalaga og sömu framkvæmdarinnar sem menn sjá hvernig hefur reynst og ég mun víkja að stuttlega síðar.

Svo ég bæti því við, upptalninguna um þessa nýju áþján, þessa nýju skattareglu sem mun kosta ekkert smáræði að setja upp, þá á að fella niður þróunarsjóðsgjald upp á einar 600 eða 700 millj. kr. Og það ætla ég að biðja menn að hafa í huga og muna að ef þessir menn sem nú stjórna landinu stjórna áfram, þá mun ekki líða á löngu þangað til hið svokallaða auðlindagjald verði gert frádráttarbært frá skatti. Þannig er þessu stjórnað af þeim sem þykjast ráða í landinu. Þann veg er þeim stjórnað.

Menn eru komnir eftir þrjú ár frá því hæstv. forsrh., formaður Sjálfstfl., hóf sáttabikarinn á loft að því er virðist á leiðarenda, án allra breytinga, ekkert hefur verið rétt fram til sátta heldur þrælast á sömu þrælalögunum sem nú á að lögfesta.

Jú, eitt hefur breyst. Smábátunum hefur verið þrælað inn í stóra þjófakerfið svo hægt sé að þjarma að þeim og enginn vafi er á því að það mun leiða til þess a.m.k. helmingurinn af þeim kemst ekki af, enda er það tilgangurinn að þessir stóru nái öllu undir sig. Það er ekkert verið að dylja þess, menn eru ekkert að dylja þess þegar þeir segja að þeir vilji gjarnan enda á fimm til sjö fyrirtækjum útgerðar í landinu og í því birtist líka byggðastefnan þeirra.

Tilgangur kerfisins hlýtur að vera óbreyttur enn. Hver var hann? Að sjá um vöxt og viðgang fiskstofna. Að gefa kost á stórfelldri hagræðingu í útgerð. Að efla byggð í landinu og tryggja búsetu. Að minnka fiskiskipaflotann sem talinn var a.m.k. einum þriðja of stór. Þessi tilgangur, þau markmið öll hljóta að vera enn í gildi. Og hvernig hefur tekist til? Það er skellt skollaeyrum við því þó menn rifji upp æ ofan í æ hvernig tekist hefur til með þessi markmið. Hvernig hefur tilgangur kerfisins nýst sem við höfum verið með óbreytt í framkvæmd í nærri 20 ár?

Staðreyndirnar um fiskstofnana eru að botnfiskstofnunum hefur stórkostlega hrakað. Það er óþarft að nefna tölur í því sambandi, en gjarnan má minna á að á 22 árum frá 1950--1972 var jafnstöðuafli þorsks á Íslandsmiðum 438 þúsund tonn. Hvað er hann orðinn núna eftir að ríkt hefur yfir okkur það kerfi sem nú á endanlega að lögfesta? 150 þúsund tonn. Ekki einn þriðji af því sem hann var um 22 ára skeið og maður skyldi halda að full reynsla hefði þá verið komin á að íslenska þorskslóðin gat gefið þetta af sér. Og þannig er um alla botnfiskstofnana.

Það átti að gefa kost á stórfelldri hagræðingu. Í hverju birtist hún? Í stórkostlegri skuldaaukningu útgerðarinnar, svo grimmilegri að það hefur orðið að láta gengið hrapa til þess að hún færi ekki alveg á hliðina. Og hver er orsökin til þess í ágætu verði afurða og yfirlýsingum stjórnvalda um stórkostlega hagræðingu? Ástæðurnar rakti hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hér áðan. Þetta er braskið. Út úr útgerðinni eru sognir ekki milljarðar heldur tugir milljarða og menn sjá hvert stefnir. Það er líka rétt að það endar auðvitað með því að þjóðin sjálf hefur keypt allar veiðiheimildirnar. Og herrarnir sem fénýta þetta og maka krókinn eru komnir með þetta í aðra atvinnuvegi, mikið af því, og/eða úti í Lúxemborg skattfrjálst eins og þeim var gefinn kostur á.

Kerfið átti að styrkja og styðja byggirnar í landinu og tryggja búsetuna. Hv. formaður þingflokks Framsfl. lýsti þessu líka, svo ég sæki nú röksemdir mínar og upplýsingar þangað sem þeirra er helst að leita, hjá mönnunum sem ráða, sem stjórna þessu öllu saman.

Hvernig hefur gengið með að draga úr veiðiafköstum flotans, minnka flotann? Á þann veg að ný fiskiskip sigla til landsins eins og á færibandi frá Kína, sérstaklega byggð með það fyrir augum að komast með trollið sitt inn að 4 sjómílum. Lengdin upp á sentimetra við það miðuð. Og aflmikil skip. Inn að 4 mílum og ég heyrði hv. 5. þm. Vestf., Einar Odd Kristjánsson, upplýsa að vélarafl hefði þrefaldast á þessum tíma og það hefur þrefaldast en samt hefur botnfisksaflinn minnkað um tvo þriðju.

Síðan þetta gamla deiluefni af því að þeir sem ráða ferðinni vilja ekki kannast við staðreyndir, allt er blekkingum hulið. Hæstv. forsrh. talar svo varla í nokkru máli að ekki sé farið til hliðar við staðreyndir og sannleika. Honum helst það uppi því að allir fjölmiðlar ganga undir þessum ósóma, en það er brottkast aflans. Ég hef margoft rifjað það upp að einn af þekktustu fiskiskipstjórum þjóðarinnar, Hrólfur Gunnarsson, hefur látið þá skoðun í ljós að brottkastið næmi um 200 þúsund tonnum. Menn vita kannski að inni í reiknilíkani Hafrannsóknarstofnunar eru 10 þúsund tonn sem þann veg er reiknað með að brottkastið nemi. Menn hafa ekki þorað að nefna þetta upphátt, þessa ógn, en mér sem að líkum lætur er fullkunnugt um sóðaskapinn í þessu sambandi. Á öllum höfnum er reynt að svindla og svindlað fram hjá vigt, breytt um tegundir. Ungir menn sögðu mér frá því hvernig snurvoðarbátarnir af Snæfellsnesinu höguðu sér. Það var mikil fiskgengd og mikið smælki og af 5 tonnum í hali mátti þakka fyrir að 500 kíló færu í lestina.

Menn hafa fyrir augum að aldrei kemur að landi neinn dauðblóðgaður fiskur. Ekki heldur af netum sem þó drepa um 40% af fiski fyrstu nóttina sem þau eru í sjó. Það hefur meira að segja hent að skip hafi aðeins komið með hrogn að landi og ég nefni þetta án þess að mér sé hlátur í hug.

Sóðaskapurinn, braskið, svindlið og menn segja við mig í ávítunartóni: Þú ert að svívirða íslenska sjómannastétt. Þú, gamli útgerðarmaðurinn og fæddur á sjó. Ég er ekki að því. Þeir eiga engra annarra kosta völ undir þessu kerfi, menn sem þurfa að leigja sér þorskinn á 150--160 kr. kílóið, eiga engra kosta völ en að henda öllu öðru en því sem gefur mest verðið, engra kosta völ. Og allir þessir menn eru að bjarga lífi sínu og sinna, framfærslu sinni. Eru neyddir af kerfinu til þess að haga sér svona.

Það er síðan mál sem ég hef áður komið að í sambandi við þá mismunun sem menn eru beittir, upp úr og niður úr. Það má líka nefna hvernig var farið að með skipstjórakvótann. Þegar Samherja voru á silfurfati rétt 4.000 þorskígildistonn. Hvernig meta þeir það, útgerðarfurstarnir? Kynnu það að vera eitthvað liðlega 4 milljarðar króna?

Formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar fékk afhent nærri 3.000 þorskígildistonn. (Gripið fram í: Heitir hann Stefán Jón Hafstein?) Nærri 3.000 þegar hann fékk skipstjóra af Örfirisey yfir á Viðey. (GAK: Fyrrverandi framkvæmdastjóri.) Og hann fer auðvitað létt með það að borga ... Hvað sagði hv. þm.? (GAK: Fyrrverandi framkvæmdastjóri.) Fyrrverandi já, en hann var ekki settur af þess vegna þar. En það er, eins og ég segi, ekki að undra þótt sá maður fari létt með að borga pólitískan herkostnað hvort heldur það er Þjóðvaki eða annað þar sem hann fylkir liði, og er búinn að eignast málgagn sem hann stjórnar með þeim hætti sem stundum má sjá merki á.

[17:15]

Til að bjarga útveginum, útflutningsatvinnuvegunum, var gripið til þess ráðs að kolfella gengið. Og hverjir borga þegar fjármagnið er flutt með þessum hætti yfir til útflutningsatvinnuveganna? Hverjir borga? Þeir sem þurfa að kaupa sér í matinn. Allur almenningur borgar. Það er verið að færa peninga til útgerðarinnar sem þeir svo í hinu orðinu segja að gangi afbragðsvel.

Þegar þetta frv. sá fyrst dagsins ljós á hinu háa Alþingi tóku kollegar mínir í stjórnarandstöðunni fram að hér væri kastað stríðshanska. Það er rétt og við honum verður tekið, á því er ekki nokkur minnsti vafi.

Hitt er svo annað mál að þótt kjafti og klóm verði beitt höfum við þau dæmi fyrir augum að það hefur komið í einn stað niður. Menn taka ekki rökum. Þeir eru svínbeygðir af þessu útgerðarauðvaldi og fara í öllu að vilja þeirra, og auðvitað er reyndar hæstv. varaforsætisráðherrann einn dæmigerðasti kvótahöfðinginn frá Höfn í Hornafirði.

Ég hygg að sagnfræðingar framtíðarinnar muni kveða upp þyngstan dóm yfir núverandi ríkisstjórn, þyngri en yfir öllum öðrum íslenskum ríkisstjórnum, vegna þessara ódæma sem íslensk stjórnvöld leyfa sér að hafa í frammi.