Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:01:13 (5470)

2002-03-04 18:01:13# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:01]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég hef beinlínis sagt að slík byggðatenging mundi vega sérstaklega að stórfyrirtækjum. Ég held einfaldlega að stóru fyrirtækin spjari sig einmitt best í samanburði við annað við þær aðstæður þegar verið er að sverfa að sjávarútveginum með óhóflegri gjaldtöku eða miklum fyrningarkröfum. Ég held að sá aðili sem þurfi helst að hafa áhyggjur við þær aðstæður sé einyrkinn, sá sem er nýjastur í greininni. Þess vegna kom ég m.a. að því áðan í máli mínu þegar ég var að reyna að fara efnislega yfir hugmyndina um fyrninguna, að ég teldi að eitt af því versta við þessa fyrningarleið væri að hún væri óhagkvæm, óhagstæð og neikvæð fyrirtækjum sem væru að vaxa, stækka og þyrftu að glíma við það að kaupa sér aukinn veiðirétt og berjast við fyrningu veiðiréttarins á sama tíma. Þess vegna var ég að reyna að færa fyrir því rök áðan að þetta væri sérstaklega óhagkvæmt fyrir þessi fyrirtæki.

Ég er svo alveg sammála hv. þm. um að víða hefur tekist prýðilega til þar sem hefur orðið samstarf milli stórra fyrirtækja og einstakra byggðarlaga þó að hin dæmin séu líka til, mjög sár og mjög vond, um að menn hafi --- ég veit ekki hvernig best er að orða það --- komið með ótrúlega óskammfeilnum hætti fram við einstök byggðarlög og svipt þau veiðiréttinum eins og dæmi eru um. Það er hins vegar rétt sem hv. þm. segir að við þekkjum mjög góð dæmi um að tekist hefur mjög gott samstarf milli byggðanna og stórra fyrirtækja. Hann nefndi Grenivík sem dæmi. Ég get nefnt annað dæmi, þ.e. samstarf Útgerðarfélags Akureyringa og heimamanna á Hólmavík þar sem menn hafa staðið að fullu við sín gefnu fyrirheit og haldið þar uppi öflugum atvinnurekstri. Raufarhöfn er væntanlega þriðja dæmið og athyglisvert er að öll þessi dæmi eiga eitt sameiginlegt, þ.e. að þar er um að ræða samstarf við fyrirtækið Útgerðarfélag Akureyringa og það tel ég það mjög til hróss.