Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:03:24 (5471)

2002-03-04 18:03:24# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:03]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talaði um tillögur okkar og hélt því fram að þær mundu valda samþjöppun í greininni. Mér finnst fráleitt að halda því fram vegna þess að fyrningarleiðin sem við leggjum til og aðferðin við að setja þessar veiðiheimildir á markað eru settar fram bókstaflega til þess að allir geti setið við sama borð. Gert er ráð fyrir því að menn geti meira að segja greitt jafnóðum, nánast jafnóðum og þeir nýta veiðiheimildirnar, þær veiðiheimildir sem þeir fá á markaðnum og að markaðurinn verði fyrst og fremst hugsaður sem þjónusta við útgerðina í landinu en ekki aðferð til þess að kreista út hæsta verð á markaðnum eins og einkaeignarréttur á veiðiheimildunum hefur sýnt sig að vera notaður. Að halda því fram að þetta muni valda mikilli samþjöppun er fráleitt vegna þess að þetta gefur öllum sem vilja taka þátt í þessum atvinnurekstri tækifæri til þess að keppa á jafnræðisgrundvelli.

Síðan langar mig til þess að spyrja hv. þm. hvort hann sé sammála því að setja eigi ákvæði í stjórnarskrá um eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni.