Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 20:21:19 (5491)

2002-03-04 20:21:19# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[20:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég var að reyna að færa rök fyrir því að við byggjum þegar við veiðileyfagjald og reyndar byggði ég rökstuðning minn að verulegu leyti á málflutningi hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem sýndi fram á í mjög ágætu máli að sjávarútvegurinn eða hluti hans greiddi yfir 10 milljarða á hverju ári að verulegu leyti inn í fjármagnskerfið fyrir veiðiheimildir, allt að 13 milljarða kr. og kæmi til með samkvæmt líkindareikningum að greiða enn meira. Með öðrum orðum ef þetta er rétt, sem ég held að sé, þá búum við þegar við þetta kerfi. Vandinn er sá að það eru sum fyrirtæki sem þurfa að standa undir þessum kostnaði en önnur ekki þannig að við búum ekki við jafnræðisreglu. Annað er að það er líka ranglátt í samfélagslegu tilliti vegna þess að þessir fjármunir renna til kvótahafanna en ekki samfélagsins í þeim mæli sem æskilegt væri. Þess vegna ætti sáttaleið að byggja á því að finna farveg til þess að stuðla að samfélagslegri lausn. Út á það gengur málflutningur okkar.