Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 21:10:11 (5508)

2002-03-04 21:10:11# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[21:10]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að gera þetta að tillögu minni. Ég aftur á móti sagði sem svo að spurning gæti verið um það, séu menn að ímynda sér að ná einhverjum sáttaleiðum og það hafa verið verulegar deilur um þennan sjómannaafslátt, hvort það væri ein leiðin. Ég hef heyrt þetta frá forsvarsmönnum sjómannasamtaka sem hafa viljað skoða þetta sérstaklega. Ef þetta gæti leitt til einhverra sátta í þjóðfélaginu væri þetta skoðunarvert.

Ég er alveg sammála hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni um að 2,9 millj. í meðallaun eru engin svakaupphæð, ég tala ekki um ef menn eru 275 daga á sjó yfir árið. Aftur á móti vitum við báðir tveir að þessi laun eru meðaltal og hámarkið í þessu, þegar við erum að tala um laun sjómanna, er ekki eins og tvöfalt þetta eða þrefalt þetta, það er kannski tífalt þetta. Hæstu skipstjóralaun, ef sá hinn sami er á sjó allt árið, gætu vel numið tífaldri þessari upphæð. Þannig erum við náttúrlega að tala um alveg feiknalega mikinn mun. Sums staðar eru laun sjómanna orðin gríðarlega há, annars staðar eru þau lág. Það er spurning með þetta aflahlutdeildarkerfi, hvort í rauninni er hægt að halda því til streitu mikið lengur. Ég hef komist að því á ferðum mínum um landið að það er farið að gera báta út í verktöku þannig að það er ákveðinn aðili sem leigir bátinn af eigandanum sem ræður síðan verktaka um borð til þess að ná í aflann.