Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 21:37:12 (5513)

2002-03-04 21:37:12# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[21:37]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það nýja í 1. gr. er auðvitað það að það liggur bara skýrt fyrir að Hafrannsóknastofnun má stunda veiðar samfara rannsóknum sínum, en það liggur hins vegar ekki fyrir að aðrir aðilar geti stundað rannsóknir og þá jafnframt veiðar.

Varðandi 23. gr., um útreikning veiðigjalds, þá er það nú einfaldlega svo að stundum er til sýnd veiði en ekki gefin. Þó að úthlutað sé aflaheimildum, þá er ekki þar með sagt að veiðiheimildirnar veiðist, þó að oftast nær sé það eitthvað í námunda við það. En það er nú samt sem áður svo að við gætum alveg lent í því að eitthvert útgerðarform næði bara alls ekki aflaheimildum sínum. Þess vegna spurði ég, að farið gæti saman minnkandi afli miðað við úthlutun, eða mun minni afli en úthlutunin gefur tilefni til og líka mun minni tekjuinnkoma. Ég held því að gjaldið svona útfært geti verið mjög íþyngjandi í sumum tilvikum.