Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 23:03:15 (5539)

2002-03-04 23:03:15# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[23:03]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta verður alltaf skýtnara og skrýtnara.

Ég vil benda á að við gátum ekki annað en látið útgerðina hafa veiðiréttinn á Íslandsmiðum. Öðruvísi hefði hún misst veiðiréttinn og þá hefði hún náttúrlega orðið gjaldþrota samdægurs. Ég vil benda á að útgerðin var þá mjög skuldug, nákvæmlega eins og hún er í dag. Ef við tökum veiðiréttinn af henni í dag þá yrði hún bara samdægurs gjaldþrota, ekkert þyrfti um að binda. Það liggur alveg fyrir.

Ég hef alltaf haldið því fram að aflakvótakerfi við bolfiskveiðar væri mjög hættulegt kerfi, að mjög vafasamt væri að hægt væri að nota það og þess vegna yrðum við að leita nýrra leiða. Mér er alveg nákvæmlega sama hvaða orðalag menn nota, hvort menn nota veiðiréttarhugtakið, nýtingarréttarhugtak, eignarréttarígildi eða eignarrétt. Það skiptir mig engu máli hvaða hugtak menn nota. Ef við náum ekki árangri með einni aðferð þá verðum við að endurskilgreina þennan veiðirétt eða nýtingarrétt eða hvað menn vilja kalla það. Það getur verið mjög erfitt. Það kann enginn þá leið í heiminum. En við verðum að leggja í þá vegferð. Við vitum að Færeyingar eru að reyna sínar aðferðir. Ég veit ekkert um þær svo sem. Aðrir, t.d. Bandaríkjamenn, horfast í augu við að verða að fara að leita nýrra leiða, reyna að átta sig á hvaða veiðarfæri eigi að nota, hvar og hvenær verið er að veiða.

Þetta eru menn að horfast í augu við vegna þess að í Norður-Atlantshafinu öllu eru þorskstofnarnir að visna upp. Sú hætta steðjar að okkur, sú ógnvænlega hætta. Ég hélt að það væri aðalatriði þessa máls en ekki að þrátta um hvort að skattleggja eigi þessa atvinnugrein eitthvað sérstaklega umfram aðrar til þess að eyðileggja möguleika hennar til að borga verkafólki og sjómönnum kaup.