Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:03:50 (5569)

2002-03-05 15:03:50# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég sé eiginlega fjær því að skilja afstöðu hv. þm. eftir þessa ræðu en fyrir. Þó finnst mér eins og hv. þm. sé að segja að hann sé fylgjandi veiðigjaldi, ekki svona veiðigjaldi heldur einhvern veginn annars konar veiðigjaldi, og að hann vilji að kostnaður sjávarútvegsins sé greiddur sameiginlega af sjávarútveginum, líka hafnagjöldin, (Gripið fram í: Af þjóðfélaginu.) já, ef frammíkallið hjá hv. þm. er rétt er ég orðinn enn þá ruglaðri í því sem hv. þm. Jón Bjarnason var að segja. Þá er hv. þm. ekki fylgjandi því að útvegurinn greiði kostnaðinn sem af útveginum hlýst og þá er hann ekki fylgjandi þeirri stefnu sem var mörkuð með ályktun Alþingis um hóflegt gjald sem færi til þess að greiða kostnað greinarinnar sem var flutt af tveimur þingmönnum í hans þingflokki, annars vegar formanni flokksins, Steingrími J. Sigfússyni, og hins vegar formanni þingflokksins, Ögmundi Jónassyni, á sínum tíma þegar þeir voru meðlimir í Alþýðubandalaginu. Hann er þá ekki sammála niðurstöðu auðlindanefndarinnar og þá get ég heldur ekki skilið að hann sé sammála niðurstöðu fulltrúa Vinstri grænna í endurskoðunarnefndinni um fyrningarleiðina sem þar var lögð til.