Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:11:00 (5573)

2002-03-05 15:11:00# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki miklu nær eftir svör hv. þm. Það kann að vera að hann hafi misskilið spurningar mínar en vegna síðustu orða hans vil ég benda á að þótt kvóti yrði leyfður á fiskvinnsluhús jyki það ekki aflann og sá afli sem þegar er dreginn að landi er unninn af fiskvinnslufólki einhvers staðar. Við höfum líka komið okkur upp fiskmörkuðum til að sá afli sem er aflögu geti skipst með þeim hætti að þeir séu að verka aflann hverju sinni sem hæfastir eru til þess. Það er alveg ljóst að þær tæknibreytingar og sá minnkandi afli sem við höfum mátt horfa upp á undanfarið hafa gert það að verkum að það er ekki nóg fyrir alla en sér hv. þm. að það breytist eitthvað þó að hann sjái fyrir sér kvóta á fiskvinnsluhús? Auk þess svaraði hann ekki spurningu minni um sjómennina.

Síðan aðeins varðandi þessa samfélagslegu ábyrgð. Jafnaðarmenn hafa haft þá lífsskoðun að eðlilegt væri að við beittum hinni samfélagslegu ábyrgð í velferðarkerfinu. En til þess að geta verið með öflugt velferðarkerfi verðum við líka að leyfa markaðnum að ráða þegar við komum út í atvinnu- og efnahagslífið. Það hefur verið okkar lína. Þess vegna á ég kannski svolítið erfitt með að skilja hvar hv. þm. dregur sína línu. Ég held að ég spyrji aftur og ítreki spurninguna: Er hann þeirrar skoðunar að við eigum að fara eins með atvinnulífið og með velferðarkerfið, þ.e. að við eigum ekki að gera kröfu til þess að atvinnulífið standi sjálft undir þeim kostnaði sem af því hlýst?