Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:12:55 (5574)

2002-03-05 15:12:55# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég var að ræða um að mér hefði fundist að það ætti að skoða það að fiskvinnslurnar fengju rétt til veiðiheimilda innan þess kerfis sem verið er að leggja til var það einungis innan þeirrar umræðu sem hér er og í tengslum við það frv. sem hér liggur fyrir.

Mér er ekki, virðulegi forseti, sama hvar fiskurinn er unninn. Ég vil að hann sé hluti af atvinnulífinu vítt og breitt um landið og tel að beita verði öllum aðferðum til að tryggja að svo verði. Ein leiðin innan núverandi kerfis gæti verið sú að veita fiskvinnslum heimild til að eiga aðgang að slíkum veiðiheimildum.

Ég hef miklar áhyggjur af stöðu íbúanna og fiskvinnslufólksins í þeim byggðum sem verið er að flytja kvótann burt úr. Það frv. sem hér er lagt fram er með auknar heimildir til stækkunar á sjávarútvegsfyrirtækjum sem getur ekki leitt til annars en þess að fiskveiðiheimildir fara frá einu byggðarlagi til annars, annars geta þau ekki stækkað. Ég hef áhyggjur af því að það lendi þá áfram á þessum sömu veiku byggðum sem við erum í hinu orðinu að tala um að við ætlum líka að standa vörð um og það verðum við þá að gera í raun en ekki bara í orði. Það tel ég einn alvarlegasta ágallann við frv. að það gerir það ekki. Það leyfir áfram að gengið verði á stöðu og atvinnulíf margra. (LB: Hvernig á að breyta þessu?) Virðulegi forseti. Besta breytingin yrði að taka upp stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í sjávarútvegsmálum sem er hér á blaði og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ætti líka að kynna sér.