Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 17:26:29 (5615)

2002-03-05 17:26:29# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[17:26]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, 6. þm. Norðurl. e., heldur því fram að helstu markmið hans og annarra þingmanna sem mæla fyrir svokallaðri fyrningarleið sé að auka afrakstursgetu fiskstofnanna og það sé aðalatriðið.

Ég ætla ekki að efast um þann ásetning að reyna að auka þá afrakstursgetu, það er nauðsynlegt. Það eru allir sammála um að auka þarf fjármagn til Hafrannsóknastofnunar og til sjávarrannsókna yfirleitt til að átta sig á því hvernig lífríkið breytist með veiðinni og breyttum veiðiaðferðum o.s.frv. Þetta er verið að gera. Það er enginn ágreiningur um það, það er verið að reyna þetta.

Vegna þess að hv. þm. er að reyna að tala um einhverjar sáttaleiðir og kemur með þá hugmynd eins og hefur verið rætt um hér að fyrningarleiðin sé það eina rétta, að þjóðnýta allar eigur þeirra sem núna standa í þessu, til þess að úthluta þeim með einhverjum öðrum hætti, til einhverra allt annarra aðila sem bjóða þá hæst væntanlega eða sveitarfélögunum býður svo við að horfa að fá að veiða. Hver heldur hv. þm. að nenni að standa í atvinnurekstri undir slíkum kringumstæðum? Það er nógu erfitt eins og þetta er í dag.

Ég sé fyrir mér að Akureyri sem stærsta útgerðarfyrirtæki á landinu gæti þess vegna orðið það minnsta og orðið landbúnaðarhérað eins og það var hér í eina tíð. Ég sé þann árangur af þeirri tillögu sem hv. þm. er að leggja til með foringja sínum, að þetta geti leitt til hruns á Eyjafjarðarsvæðinu og Samherji og Útgerðarfélag Akureyringa, sem skaffa hundruðum manna vinnu, að það fólk verði í rauninni á vonarvöl ef þessar hugmyndir ná fram að ganga.