Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:34:33 (5638)

2002-03-05 18:34:33# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka aftur til máls í þessari umræðu en ástæðan er sú að aftur og ítrekað hefur hæstv. sjútvrh. vikið að málflutningi mínum og einnig hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hann hefur minnst á að á sínum tíma hefðum við staðið að þáltill. sem leiddi til þess að sett var á laggirnar svokölluð auðlindanefnd. Í framhaldinu hefur hæstv. ráðherra komist að þeirri niðurstöðu að við hljótum að vera sammála stjórnarfrv. sem hér liggur fyrir þinginu. Þetta er fráleitur málflutningur því að ekki eru tengsl milli þessara mála að öðru leyti en því að ákveðinni atburðarás var hrundið af stað með umræddri þáltill.

Þá var ákveðið að setja á laggirnar svokallaða auðlindanefnd og áður hefur verið vitnað í erindisbréf þeirrar nefndar sem átti að smíða nýtt fiskveiðistjórnarkerfi eða freista þess að ná sem víðtækastri sátt um slíkt kerfi þar sem tekið yrði tillit til hagsmuna sjávarútvegsins, byggðanna og almennings í landinu í starfi sínu. Eins og menn þekkja klofnaði nefndin, hún fjórklofnaði. Annars vegar stjórnarandstaðan og hins vegar ríkisstjórnarflokkarnir sem skiluðu einnig tveimur álitum.

Síðan gerist það í framhaldinu að stjórnarandstaðan sameinast um þáltill. þar sem þess er enn freistað að leita sátta í málinu. Síðan höfum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði talað fyrir okkar áherslum við þessa umræðu og ég ætla ekkert að fara að endurtaka það.

Hitt atriðið sem hæstv. sjútvrh. hefur vikið að varðandi mig og minn málflutning snýr að þeim efnahagsstærðum sem ég hreyfði í umræðunni og kvaðst hæstv. ráðherra telja að ráða mætti af málflutningi mínum að ég væri ginnkeyptur fyrir því að skattleggja sjávarútveginn rækilega. Staðreyndin er sú að ég reyndi að sýna fram á að sjávarútvegurinn væri skattlagður og að í reynd byggi hann við veiðileyfagjald. Ég vitnaði þar m.a. í rök sem komu frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem byggði á tölum Seðlabankans og öðrum og síðan ýmsum vangaveltum hagfræðinga um verðmæti kvótans og hvað mætti ráða af því.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti á að Seðlabankinn áætlaði að á árunum frá 1995--2001 hefði verið verslað með kvóta á milli 50 og 60 milljarða kr. og á sama tíma hefðu skuldir sjávarútvegsins aukist um 60 milljarða. Hann taldi samhengi þar á milli og reiknaði það út að ef þessar skuldir væru borgaðar á tíu árum, þá mætti ætla að þar rynnu út úr sjávarútveginum inn í fjármagnskerfið um 9 milljarðar, 6 milljarðar í afborganir og 3 milljarðar í vexti, ef við reiknuðum með 10% vöxtum mætti ætla að að jafnaði væri um að ræða 3 milljarða, og þannig yrðum við komin upp í 9 milljarða. Síðan benti hann á að á ári hverju væri leigður kvóti fyrir um 3--4 milljarða kr. og þar yrðum við komin upp í 13 milljarða eða þar um bil. Þetta byggist á því að búið er að selja um 2/3 kvótans og ef við reiknum með að áfram verði haldið á þeirri braut, þá erum við komin í enn hærri upphæðir.

Önnur reikningsaðferð sem ég vék að var að nefna tölur sem menn hafa verið að henda á milli sín um verðmæti kvótans. Menn hafa talað þar um 300 milljarða. Bent hefur verið bent á að þetta séu allt of háar upphæðir. Við megum ekki reikna með dýrum jaðarkostnaði og heimfæra það upp á allt kerfið, það sé miklu minna, en menn séu engu að síður að kaupa kvóta sem þeir síðan leigi á áttföldu verði og af þessu mætti ráða að menn gætu keypt kvótann og hagnast á honum á tíu ára tímabili. Ef við værum að tala þar um 300 milljarða, þá væru þetta um 30 milljarðar sem mundu renna út úr greininni. Ef við förum neðar í tölunum, þá værum við sjálfsagt að tala um minna.

Með öðrum orðum samandregið, þá væri það að gerast núna að út úr sjávarútveginum væru teknir á milli 10 og 20 milljarðar kr. sem væri eins konar veiðileigugjald. Spurningin sem við stöndum þá frammi fyrir er: Hvert viljum við að þessi verðmæti renni, til hverra eiga þessi verðmæti að renna? Eiga þau að renna til þeirra sem hafa kvótann á sinni hendi eða á að reyna að beina þessum fjármunum í ríkari mæli en nú er í vasa almennings, til sveitarfélaganna og til ríkissjóðs? Þetta eru þær hugmyndir sem við höfum verið að velta fyrir okkur. Nálgun okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði er ekki sú að verið sé að leita leiða til að skattleggja sjávarútveginn. Það er ekki svo. Við erum hins vegar að benda á að svo sé í reynd núna og við viljum sanngjarnara kerfi. Þess vegna höfum við lagt fram tillögur sem byggja á því að fyrna kvótann á 20 ára tímabili, þrískipta hinum fyrnda kvóta, láta þriðjunginn fara á landsmarkað, þriðjunginn til byggðarlaga og þriðjunginn viljum við láta hvíla hjá útgerðinni en taka fyrir það veiðileyfagjald. Þetta er hin þrískipta leið sem við leggjum til og þar að auki erum við einnig með tillögur sem lúta að því að stuðla að vistvænum veiðum með því að vigta kílóið misþungt eftir því hvernig það er dregið á land. Þetta eru þær hugmyndir sem við höfum verið að setja fram og óska eftir umræðu um.

Við höfum orðið vör við að mikill áhugi er á að ræða þessar hugmyndir og ég held að menn eigi ekki að gefast upp við þetta verk núna, jafnvel þótt nefnd hæstv. ráðherra hafi fjórklofnað, þá eigum við að gefa okkur enn betri tíma. Ég minnist þess að á sínum tíma urðu hatrammar deilur um lífeyrismál og framtíð í lífeyrismálum, hvert við ættum að stefna í þeim efnum. Þetta var á 9. áratugnum og undir lok hans og síðan deildu menn um nokkurra ára skeið og það var ekki fyrr en komið var fram yfir miðjan 10. áratuginn að sátt náðist, víðtæk sátt í samfélaginu um hvert skyldi fara. Ég veit ekki betur en menn séu bara nokkuð ánægðir með þá niðurstöðu sem varð og það er nánast sama hver er spurður um það. En menn gáfu sér tíma, menn gáfust ekki upp þótt á móti blési og ég ætla að vona að ríkisstjórnin geri það ekki í þessu efni.