Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:49:45 (5643)

2002-03-05 18:49:45# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:49]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér erum við að fjalla um frv. til laga um stjórn fiskveiða. Mig langar til að varpa fram nokkrum spurningum í þessari umræðu um 1. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun veiði afla í rannsóknarskyni.

Mun Hafrannsóknastofnun samkvæmt þessari grein hafa leyfi til að veiða þorsk, lítinn þorsk í þorskeldi? Ég spyr vegna þeirrar umræðu sem hefur verið í þinginu og samfélaginu um þorskeldi og mikilvægi þeirrar atvinnugreinar, hvort Hafrannsóknastofnun muni hafa heimild til þess að úthluta jafnvel fyrirtækjum sem eru í þorskeldi eða hyggja á þorskeldi, heimildum til að veiða í þorskeldi, jafnvel seiði. Við getum t.d. hugsað okkur að rækjubátar í Ísafjarðardjúpi fái leyfi hjá Hafrannsóknastofnun til þess að veiða seiði og koma þeim í þorskeldi. Um þetta langar mig til að spyrja varðandi 1. gr., þ.e. þessar spurningar vakna hjá mér, herra forseti.

4. gr. fjallar um kvóta, sérstakan aukakvóta. Þar er talað um 10.500 tonna kvóta vegna aflabrests, að mér skilst. Þetta er í 4. gr. Með henni er líka gert ráð fyrir því að menn bæti við 1.500 lestum af óslægðum fiski til viðbótar við þau 1.500 tonn sem nú eru byggðakvóti. Þá er byggðakvótinn orðinn að 3.000 tonnum. Síðan er sérstakur smábátakvóti, ýsukvóti og steinbítskvóti, ef ég man rétt, herra forseti, upp á 2.300 tonn.

Hjá mér vakna þær spurningar hvaða aðferðum eigi að beita við útdeilingu þessa kvóta. Sérstaklega hugsa ég til 5.300 tonna kvótans því að frv., herra forseti, gerir í raun ráð fyrir því að það verði vandamál í byggðunum vegna þessara laga.

Í frv. segir, með leyfi herra forseta:

,,Af þeim 12.000 lestum sem ráðherra hefur til ráðstöfunar skv. 1. málsl. er ráðherra heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, að ráðstafa allt að 1.500 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.``

Þetta má túlka sem svo að hæstv. ráðherra sem leggur frv. fram geri ráð fyrir því að framkvæmd laganna hafi það í för með sér að vandi verði í byggðarlögunum. Þetta er ákaflega hóflega orðað. En það er gott að menn gera sér grein fyrir því svona kannski svolítið í húmi að frv. leysir ekki þann vanda sem því er ætlað að leysa.

Önnur spurning vaknar hjá mér: Hvernig á að útdeila þessu? Þegar byggðakvóta var úthlutað óskaði eitt sveitarfélag eftir því, herra forseti, að fá að deila aflaheimildunum þannig að þær yrðu settar á uppboð. Það hefði verið mjög snjallt hjá stjórnvöldum að taka þessari beiðni byggðarlagsins sem vildi hafa þennan máta á þannig að allir hefðu jafnan rétt til þess að keppa að þessari aflaheimild á jafnréttisgrundvelli í frjálsri samkeppni og með eðlilegum viðskiptaháttum. Það hefði verið gaman að sjá það gerast. Og um það vakna spurningar. Er ekki bara eðlilegt að þessum 5.300 tonna byggðakvóta verði úthlutað með þessum hætti? Óttast menn uppboð? Er ráðherrann banginn við það að þessi takmarkaði kvóti muni fara á uppboð? Ég sé ekki hvaða ótti ætti að skapast vegna þess því að nú þegar er náttúrlega fullt af bátum að kaupa veiðiheimildir eða leigja veiðiheimildir á uppboðum.

6. gr. fjallar um hámarksaflahlutdeildir í ákveðnum fisktegundum sem ég nefndi hér áðan og talaði um. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, og þætti mér vænt um að heyra svör við því fyrst hann er hér í salnum, hvort sá möguleiki geti verið fyrir hendi að ein útgerð eigi 50% í öllum ýsustofninum, ufsa, karfa og grálúðu. Og ég spyr: Hvers vegna eru þessar tölur bara 50%? Af hverju ekki 60% eða 70%? Hvað ákveður það að þetta eigi að vera 50%? Er kannski 60%-talan hættuleg? Er þá komið fram yfir hættumörk, samanber umræðuna um hlutdeild á matvörumarkaðnum? Talan 60% var nefnd af einhverjum, ef ég man rétt, í umræðunni um þau mál.

Þetta eru nú svona vangaveltur sem hljóta að vakna hér og kvikna.

Ég vona, herra forseti, að þetta frv. til laga, eins og það er lagt fram, lendi í góðu salti sem geymi það til langs tíma og að menn snúi sér að annarri verkun í staðinn.