Húsaleigubætur foreldra með sameiginlegt forræði barna

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:08:52 (5668)

2002-03-06 14:08:52# 127. lþ. 89.3 fundur 534. mál: #A húsaleigubætur foreldra með sameiginlegt forræði barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á vegum félmrn. er starfandi samráðsnefnd um húsaleigubætur sem skipuð er fulltrúum félmrn. og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hlutverk samráðsnefndarinnar er m.a. að fylgjast með framkvæmd laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997.

Með bréfi Félagsþjónustunnar í Reykjavík, dagsettu 29. desember 2000, var óskað eftir áliti ráðuneytisins og samráðsnefndar um húsaleigubætur á því er varðar skilyrði um lögheimili og hvernig fara skuli með húsaleigubætur fyrir foreldra sem hafa sameiginlega forsjá barna eftir skilnað. Í bréfinu kom fram að Félag ábyrgra feðra sendi Félagsþjónustunni bréf, dagsett 20. október 2000, varðandi afgreiðslu húsaleigubóta til foreldra þar sem barn á ekki lögheimili. Í umræddu bréfi átaldi félagið vinnubrögð starfsmanns Félagsþjónustunnar sem ekki tók til greina umsókn um að greiða húsaleigubætur vegna barns á heimili foreldris þar sem barnið átti ekki lögheimili en dvelur þar samt sem áður jafnlangan tíma og á heimili móður. Enn fremur fór félagið fram á að Félagsþjónustan breytti vinnureglum sínum í þessum efnum og virti samkomulag foreldra um sameiginlega forsjá. Í bréfinu er því haldið fram að þrátt fyrir að foreldrum beri að skrá barn hjá öðru hvoru foreldri hljóti raunveruleg búseta barns hjá báðum foreldrum að skipta máli við úthlutun húsaleigubóta.

Í svarbréfi Félagsþjónustunnar í Reykjavík til Félags ábyrgra feðra kom fram að túlkun Félagsþjónustunnar sé sú að skilyrði fyrir greiðslu húsaleigubóta vegna barns væri að það hefði lögheimili hjá umsækjenda og hefur greiðslum verið hagað samkvæmt því.

Um mál þetta var fjallað í samráðsnefndinni og í bréfi félmrn., dagsettu 5. apríl 2001, til Félagsþjónustunnar í Reykjavík og Félags ábyrgra feðra kom eftirfarandi fram:

2. mgr. 5. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, er svohljóðandi:

,,Bætur vegna barna greiðast frá næsta mánuði eftir fæðingu barns eða lögheimilisskráningu og þar til ungmenni nær 18 ára aldri eða flytur.``

Greinin er efnislega samhljóða 3. mgr. 6. gr. eldri laga um húsaleigubætur, nr. 100/1994, og í greinargerð með frumvarpi þeirra laga segir eftirfarandi:

,,Í 3. mgr. er greint frá því tímabili sem bætur greiðast fyrir börn leigjenda. Til þess að hægt sé að taka tillit til barna leigjanda við útreikning og ákvörðun fjárhæða verða þau að eiga lögheimili í leiguíbúðinni.``

Einnig má benda á meðferð barnabóta þegar um sameiginlegt forræði er að ræða. Barnabætur fá þeir sem hafa barn hjá sér og annast framfærslu þess. Skattyfirvöld fylgja þeirri reglu að hafi foreldrar sameiginlegt forræði fær einungis það foreldri barnabæturnar þar sem börnin eiga lögheimili, sjá m.a. umfjöllun um barnabætur á heimasíðu ríkisskattstjóra.

Með vísan til 2. mgr. 5. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, og framanritaðs staðfestir ráðuneytið þá niðurstöðu Félagsþjónustunnar í Reykjavík að skilyrði fyrir greiðslu húsaleigubóta vegna barns er að það hafi skráð lögheimili hjá umsækjanda húsaleigubóta. Sú sérstaka staða þeirra foreldra sem hafa sameiginlegt forræði yfir barni eða börnum sínum og börnin eru ekki með lögheimili hjá þeim, hefur bæði verið rædd í félmrn. og hjá samráðsnefnd um húsaleigubætur. Það sama má segja um foreldri sem hefur umgengnisrétt með barni eða börnum sínum. Hvorki hafa verið teknar ákvarðanir né eru áform um að breyta lögum um húsaleigubætur í þá veru að foreldrar sem hafa sameiginlegt forræði yfir barni eða börnum sínum sem ekki eru með lögheimili hjá þeim, fái bætur í samræmi við fjölda þeirra.