Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 13:43:20 (5737)

2002-03-07 13:43:20# 127. lþ. 91.10 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[13:43]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er kynnt frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Frv. tekur á landbúnaðarvörum eins og hæstv. landbrh. kynnti og er frv. sniðið í framhaldi af vinnu títtnefndrar grænmetisnefndar vegna breytinga á vernd íslenskra grænmetisframleiðenda og framleiðslu þeirra.

Við hljótum öll að vilja hafa manneldissjónarmið að leiðarljósi og að við sem þjóð aukum neyslu á ávöxtum og grænmeti, og þá er bara spurning með hvaða hætti við gerum það. Við getum ekki að svo komnu máli framleitt nægilegt grænmeti til að anna eftirspurn því framleiðslan er árstíðabundin hjá okkur enn þá. Þegar ég segi ,,enn þá`` á ég við að við lítum líka til þess að nýta betur ylræktina og lengja hugsanlega framleiðsluferlið í framtíðinni.

Ef við höldum okkur við daginn í dag óska ég eftir því að hæstv. landbrh. skýri svolítið betur nokkuð sem kemur fram í grg., en þar stendur:

,,Verði frumvarp þetta að lögum gilda sömu lagareglur og áður um þau sjónarmið sem landbúnaðarráðherra skal hafa til hliðsjónar við beitingu ákvæðisins. Við ákvörðun sína verður ráðherra áfram bundinn af 3. málsl. 3. mgr. 6. gr. A þar sem segir: ,,Ákvörðun landbúnaðarráðherra um lækkun tolls í samræmi við framangreinda hundraðshluta verð- og/eða magntolls skal ráðast af því hvort nægilegt framboð af viðkomandi vörum á hæfilegu verði er til staðar á innanlandsmarkaði.````

Og þá vil ég spyrja: Hvað er hæfilegt verð? Hvernig á að skilgreina það? Er það til samanburðar við erlenda markaði eða hvað telst hæfilegt verð?

En ég er ákaflega fegin því að sjá viðmiðun við íslenskt framboð áfram inni því að að mínu viti eigum við auðvitað að stýra magntollunum, þeirri álagningu sem við setjum á, eftir framleiðslumagninu hér innan lands og það er til bóta að geta hreyft hundraðshlutana eða álagninguna í minni skrefum en verið hefur þannig að ég tek undir það.

Síðan segir líka: ,,Landbúnaðarráðherra skal við ákvörðun um hundraðshluta tolls leitast við að jafnræði ríki milli innlendrar og innfluttrar framleiðslu í samkeppnislegu tilliti.``

Og þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Á ,,í samkeppnislegu tilliti`` eingöngu við um verðlag eða á það einnig við um gæði vörunnar? Hvað er ,,samkeppnislegt tillit`` í þessu sambandi?