Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 13:47:22 (5738)

2002-03-07 13:47:22# 127. lþ. 91.10 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, GE
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Í sambandi við frv. vil ég segja að ég hef oft velt fyrir mér stöðu landbúnaðarins í tengslum við það þegar niðurgreiðslur nema orðið hundruðum þúsunda á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.

Í nýlegum fréttapósti Samtaka verslunar og þjónustu, að mig minnir, ég held það heiti það, kom fram að líklegt væri að aðgerðir vegna breytinga sem verið er að gera í tengslum við grænmetisverð muni nema um 3,2 millj. á hvert garðyrkjubú miðað við 60 búa fjölda. Þetta er mjög umhugsunarvert og segir manni að það er eitthvað sem þarf að skoða.

Ég er ekki hér með að segja, virðulegur forseti, að ég ætli að leggjast gegn frv. Ég ætla að styðja frv. og mér sýnist að það sé nauðsyn. En ég vil bara vekja athygli á því að ég tel brýna nauðsyn bera til að taka í heildina allt kerfið til gagngerrar endurskoðunar, ekki síst með hagsmuni bænda fyrir augum og að sjálfsögðu hagsmuni neytenda að leiðarljósi.

Mér er ljóst að þetta eru ekki auðveldir hlutir sem ég er að nefna og ekki auðveldir hlutir að fást við en samt sem áður er nauðsyn á að bæta stöðu íslenskra bænda. Þess vegna verður að leggja á ráðin að nýju um það á hvern hátt hægt sé að skapa bændum viðunandi afkomu og síðan íslenskum neytendum bærilegt vöruverð fyrir íslenska gæðavöru. Ég er ekki þar með að segja, virðulegur forseti, að sú vara eigi endilega að vera á lægstu verðum. Við erum með hágæðavöru og við eigum að líta á hana sem slíka, en það sem ég er að velta fyrir mér, virðulegur forseti, er sú staða sem við erum komin í ef þær tölur sem hafa verið sýndar nema hundruðum þúsunda sem hver fjögurra manna fjölskylda leggur í púkkið við að greiða niður það verð sem við erum að borga fyrir landbúnaðarvörurnar og þá er ég að tala um þær alveg í heild sinni. Það er vandi að stefna í rétta átt en ég held að taka verði kerfið upp og það er ekki með gagnrýni á sitjandi landbrh. eða ríkisstjórn heldur með tilliti til, eins og ég sagði áðan, bænda og neytenda.