Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 16:26:06 (5772)

2002-03-07 16:26:06# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Vegna síðustu orða sem féllu í sal þessum. Talað var um skóg. Þar sem tré koma saman er skógur, hefur verið sagt, og er það rétt. (SJS: Þrjú tré eða meira?) Eigi veit ég gjörla hvenær hægt er að skilgreina skóg, hversu mörg tré þurfa að vera fyrir hendi til að skógur sé, en það er misjafnlega skoðað eftir því í hvaða landi talað er.

Hér er komið fram frv. til laga um landgræðslu og er það vel að fram komi nýtt frv. um landgræðslu sem tekur á og kemur með ýmsar greinar sem hefur ekki verið fjallað um í þeim lögum sem gilda nú um þessi mál. Ég tek undir þau orð sem hafa fallið í sambandi við 3. gr., herra forseti, þar sem talað er um yfirstjórn landgræðslumála. Spyrja má hvort ekki fari vel á því að það sé ákveðin stjórn Landgræðslunnar, það sé ákveðinn hópur manna sem móti og leggi fram tillögur um aðgerðir, stefnu og tillögur um fjárhag og annað hjá Landgræðslunni. Einnig vakna spurningar um hvort nauðsynlegt sé, eins og spurt var um áðan og velt upp, að landgræðslustjóri þurfi endilega að hafa háskólapróf í landgræðslu. Þessu má velta fyrir sér. Geta líffræðingar ekki alveg eins orðið góðir landgræðslustjórar eða ... (Landbrh.: Prestar?) Prestar, segir hæstv. landbrh., og er ég nú sannfærður um að margir þeirra mundu nýtast vel í það að vera landgræðslustjórar, enda var einn frægasti landgræðslumaður Íslandssögunnar prestur, Björn í Sauðlauksdal, sem fyrstur manna ræktaði kartöflur, og veit ég ekki betur en Landgræðslan sé einmitt með starfsemi þar sem þessi ágæti klerkur var og væri kannski einmitt ágætt að hæstv. landbrh. kæmi með tillögu um að í það minnsta væri í þessum lögum ákvæði um að aðrir en háskólamenntaðir menn í landgræðslu ... (Landbrh.: Og prestar þá.) Já, fyrst gripið er svona fram í, að það væru þá háskólamenntaðir menn í landgræðslu eða guðfræðingar. Svona er nú talað. En ég vek athygli á því hvort þurfi að vera skilyrði að háskólamenntun í landgræðslu þurfi til að vera landgræðslustjóri.

[16:30]

Hér er líka talað um verkefni sveitarfélaganna og að sveitarfélög skuli stuðla að landgræðslu, og er það vel. Í mörgum sveitarfélögum er einmitt mikil vakning um landgræðslu og meðvitund um að nauðsynlegt sé að klæða landið gróðri sem mest.

Í 6. gr. er gert ráð fyrir landgræðsluáætlun. Hér segir: ,,Landgræðslan skal í samráði við landbúnaðarráðherra ...`` Hér er þá samkvæmt 3. gr. frv. væntanlega átt við landgræðslustjóra. Eða hvað er annars átt við með Landgræðslunni? Er það kannski starfsfólkið í Landgræðslunni eða landgræðslustjórinn sjálfur og landbrh.? Hér kemur einmitt spurningin um hvort rétt sé að hafa sérstaka stjórn Landgræðslunnar þar sem fleiri koma saman og ræða um þessi mál. Ég tel mjög gott að landgræðsluáætlanir skuli vera gerðar til 12 ára í senn, og er vel að menn hugi að framtíðinni enda tekur það gróðurinn meira en bara eitt ár að festa rætur og eflast.

Þær vangaveltur sem hafa einnig komið fram í sambandi við Landgræðsluna og Skógræktina hlutu að vakna. Hv. landbn. hlýtur að fjalla um það þegar hún tekur þessi mál fyrir hvernig tengsl Landgræðslunnar og Skógræktarinnar eiga að vera. Í sambandi við landgræðsluáætlanir gætu t.d. Landgræðslan og landbrh. gert tillögu um landgræðslu á ákveðnum svæðum þar sem um skógrækt yrði að ræða. Skógræktin er með skjólbelti --- verður Landgræðslan það líka? Stofnanirnar skarast á ákveðnum sviðum, og spurningar vakna eins og ég segi, herra forseti, um það hvort við ættum ekki að taka skörunina til umfjöllunar eins og vikið var að í ágætri ræðu hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur áðan.

Talað er um héraðsáætlanir í 7. gr. um landgræðslu. Það er gott að sveitarstjórnir hafi áætlanir um hvernig gróðurfar skuli vera í byggðum þeirra og að fólk almennt í byggðum landsins hafi líka um það að segja í gegnum sveitarstjórnir sínar hvernig gróðurfari fólk vill beita sér fyrir, hvort ekki þurfi að bæta einhvers staðar eða laga til. Fjallað hefur verið um erlendar jurtir. Auðvitað er svo sem hægt að segja að allar jurtir séu erlendar í vissum skilningi. Einu sinni var landið algjörlega ógróið og gróðurinn verður náttúrulega til upphaflega með --- ja, foki væntanlega og fuglar bera með sér fræ. Síðan hafa menn náttúrlega gert það síðar. En það þarf að gæta þess að einkenni landsins, íslenskrar náttúru, fái að njóta sín sem allra best og mest og að menn fari ekki offari í að gróðursetja á kostnað viðkvæmra íslenskra jurta sem hafa verið hér um aldir. Þetta þarf allt að hafa í huga í þessum áætlunum.

Þá er í frv. fjallað um ábyrgð á landnýtingu, ofbeit hefur nokkuð verið nefnd og ágangur hrossa í beitarlönd og að sums staðar séu allt of mörg hross sett á sum svæði þar sem þau valda skemmdum á gróðri og jafnvel landinu. Fleiri hafa eyðilagt gróðurinn hér en dýrin. Við höfum séð sár í landinu eftir þá sem kunna ekki að aka á réttum stöðum, aka á jeppum og stórum farartækjum, spæna jafnvel upp viðkvæman gróður og setja í landið sár sem tekur fleiri áratugi að laga, jafnvel aldir segja sumir. Það er því ágætt að ákvæði séu um þetta og líka talað um ábyrgð. Ég vona að þetta verði til þess að fólk vakni betur til vitundar um að ganga vel um landið. Ég tel gott að menn geri það. Síðan er rætt um viðbrögð við þessu, að sveitarstjórnir komi að ef menn hafa verið með skemmdir, og einnig að Landgræðslan komi þar inn í.

Eins og þetta kemur mér fyrir sjónir, herra forseti, verður gífurlega mikill kostnaður ef farið verður alveg eftir þessum lögum. Þá vakna spurningar um hvað hæstv. landbrh. sér fyrir sér að þurfi að auka framlög mikið til landgræðslunnar í þessu sambandi. Enn fremur vakna spurningar í sambandi við rannsóknir á gróðri, hvort ekki þurfi að auka þær til muna undir skipulagi landgræðslumála.

Eins og ég segi erum við að tala um landið okkar og gróðurinn, gróðurvernd og uppgræðslu og það er gott. Jafnframt vakna hugrenningatengsl við gróður sjávarins og hvernig gengið er um hafið, um botn hafsins. Munum við einhvern tíma í framtíðinni sjá lög um það, herra forseti, að ákveðin svæði hafsbotnsins verði algjörlega friðuð? Er hægt að hugsa sér í framtíðinni að ákveðin svæði í landhelgi okkar verði hreinlega þjóðgarðar sjávarins? Ekki held ég að það sé óhugsandi, að við eigum eftir að sjá svoleiðis í framtíðinni þar sem veiðarfæri eru orðin stórvirkari. Hef ég heyrt marga ræða, herra forseti, um að jafnvel snurvoð sem margir gagnrýndu áður fyrr sé orðin mjög eyðileggjandi fyrir gróður á hafsbotnum. Það er reyndar ekki til umræðu hér en hugsanir um það hljóta að vakna því að gróður í landhelgi okkar og örfáa metra frá landsteinum er náttúrlega mikilvægur í lífríki okkar og gegnir hlutverki eins og annar gróður.

En ég býst við því, herra forseti, að þegar þetta frv. kemur til umfjöllunar landbn., sem ég reikna með að þingið vísi því til, verði rætt um það sem nefnt hefur verið, bæði úr mínum munni og annarra hér, og margt fleira.