Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:02:28 (6115)

2002-03-13 14:02:28# 127. lþ. 97.1 fundur 537. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:02]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Varðandi forsrn. er svarið reyndar mjög svipað því sem hv. þm. las upp varðandi önnur ráðuneyti. Það er reyndar þannig að forsrn., þó að nafnið sé virðulegt, er hvorki stórt ráðuneyti né með mjög margar stofnanir undir sér. Þó að sagt sé að stofnanir eins og Alþingi og Seðlabanki heyri undir forsrn. þá verða menn nú að skilja það eins og það er. Það má frekar segja, svo að maður sletti, að það sorteri undir forsrn. í fjárlagatillögum til að mynda fremur en það heyri undir forsrn. Þó mun það vera svo að t.d. Seðlabankinn hefur haft símsvörun fyrir Seðlabankann staðsetta utan höfuðborgarsvæðisins. En það var ekki fyrir milligöngu eða meðalgöngu eða vegna fyrirmæla forsrn. heldur eingöngu Seðlabankans sjálfs þannig að hann á þá heiður fyrir það fremur en ráðuneytið, enda hefur ráðuneytið ekkert boðvald yfir Seðlabankanum fremur en Alþingi eða öðrum slíkum stofnunum þó að þær ,,heyri`` undir ráðuneytið.

Ég hlýt hins vegar að vísa sérstaklega til svars sem ég veitti hv. þm. Kristjáni L. Möller á 126. löggjafarþingi og var merkt sem 57. mál. Þar er fjallað nokkuð ítarlega um þessa starfsemi og hvaða reynsla hefur fengist af þessu hjá einstökum ráðuneytum. Þar er forsrn. nefnt sérstaklega. Ég get vísað í þá þætti sem þar eru nefndir, t.d. að forsrn. hafi stutt við bakið á tilraunaverkefni í fjarvinnslu sem fól í sér að munir í vörslu Þjóðminjasafns voru skráðir í fjarvinnslu á Bakkafirði og síðar af Landvist á Húsavík, notkun á þjónustu þýðenda úti á landi með slík verkefni og þess háttar. Þetta var allt saman tekið fyrir og skýrt frá þessu sérstaklega í skriflegu svari, hygg ég að það hafi nú verið frekar en munnlegt, á sínum tíma til hv. þm.

Við þekkjum það að þingið sjálft hefur núna upp á síðkastið leitast við, og hlotist nokkur hávaði af, að sinna þjónustu eða starfsemi af þessu tagi. En ég get alveg tekið undir það með þingmanninum að þetta hefur ekki gengið eins vel fram og væntingar máttu standa til. Við þekkjum að í verki er erfiðara við þetta að eiga en menn mundu ætla í upphafi.